Vísitala neysluverðs í Argentínu hækkaði um 6,6% í febrúar og hefur nú hækkað um 102,5% á undanförnum tólf mánuðum, samkvæmt tölum sem Hagstofa Argentínu birti í gær. Ársverðbólga í Argentínu hefur ekki farið yfir 100% í þrjá áratugi eða frá árinu 1991.

Í umfjöllun Financial Times segir að hækkandi verðlag hafi að stórum hluta verið rakið til peningaprentunar argentínska seðlabankans ásamt áhrifa stríðsins í Úkraínu. Peningamagn í umferð hefur fjórfaldast á fyrstu þremur árum Alberto Fernández í forsetaembættinu.

Einungis í Simbabve, Líbanon, Venesúela og Sýrlandi er verðbólga meiru en í Argentínu. Flestir hagfræðingar gera ráð fyrir viðvarandi verðbólgu í Argentínu og hafa efasemdir um gagnsemi aðgerða stjórnvalda, þar með talið verðstýringarkerfi ríkisins, til að ná tökum á henni.

Verðbólgutölurnar gætu reynst miðju-vinstri ríkisstjórn Fernández erfitt fyrir í þingkosningunum sem fara fram í október. Verðbólga er helsta áhyggjuefni Argentínumanna samkvæmt skoðanakönnunum. Spilling og fátækt fylgdu þar á eftir.