Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir hreyfingar á skuldabréfamörkuðum benda til þess að verðbólguálag til skamms tíma sé að lækka.
„Það er töluverð lækkun á verðbólguálaginu, lækkunin á óverðtryggðu ríkisbréfin er aðeins að ganga til baka,“ sagði Jón Bjarki í samtali við Viðskiptablaðið um tíuleytið í morgun.
Óverðtryggðu ríkisbréfin eru að lækka þvert á línuna hvað kröfu varðar á meðan verðtryggðu bréfin eru að hækka. Það sem af er morgni er verðbólguálagið að skreppa saman á bilinu 10 til 30 punktar.
„Þetta fer þó eftir tímalengdum en álagið hefur verið að lækka fram að þessu, sérstaklega styttra álagið, þannig þetta bætir ofan á þróun sem hefur verið í gangi síðustu vikur,“ segir Jón Bjarki.
Að hans mati er líklegt að skuldabréfafjárfestar hafi verið undirbúnir undir það að verðbólgutölur væru í samræmi við eða yfir spám.
„Ég hugsa að margir hafi sett sig í stellingar á skuldabréfamarkaði til að bregðast við ef mælingin hefði ekki verið undir spám. Stöðutakan á markaði hefði þá orðið þannig að það hefði getað orðið hækkun á álaginu. En eftir þessar tölur virðast menn hafa bætt í fyrri stöðutökur.“