Á mánudag lækkaði ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisskuldabréfa um 0,03 til 0,10 prósentur á skuldabréfamarkaði í tæplega 5 milljarða króna veltu. Verðbólguálag, þ.e. vaxtamunur verðtryggðra og óverðtryggðra skuldabréfa, lækkaði í svipuðum takti og var í kringum 4 prósent til tíu ára.
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir kjarasamninga sem Samtök atvinnulífsins (SA) og Starfsgreinasambandið (SGS) undirrituðu á laugardag líklega skýringu ofangreindrar lækkunar mánudagsins. Þrátt fyrir að enn sé mikil óvissa um hvernig aðrir semji í kjölfarið hafi markaðsaðilar virst líta á þetta sem fyrsta skref í átt að minni óvissu um verðbólguþróun, og þar með vaxtaþróun, á næsta ári.
Viðbrögðin gefi þó alls ekki til kynna að allt sé í stakasta lagi og markaðsaðilar öruggir um að verðbólga verði hófleg. Heldur gefi þau til kynna að horfurnar hafi aðeins skánað. „Verðbólguhorfur hafa ekki batnað verulega, heldur virðast markaðsaðilar hafa minni áhyggjur af því að verðbólga verði meiri heldur en spár gera ráð fyrir. Ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisbréfa var í stórum dráttum óbreytt á meðan ávöxtunarkrafa flestra óverðtryggðra ríkisbréfa lækkaði um þrjá til ellefu punkta. Veltan var þokkalega mikil, sem rennir frekari stoðum undir ofangreint. Þetta voru ekki bara fáir aðilar að eiga viðskipti sem skýrast af öðru en mati á markaðsaðstæðum, heldur bendir þetta til að um hafi verið að ræða almennari tilfinningu á markaðnum,“ segir hann.
Skammgóður vermir
Fyrrnefnd lækkun ávöxtunarkröfu óverðtryggðra skuldabréfa var þó skammgóður vermir þar sem hún gekk að miklu leyti til baka strax daginn eftir en þó í minni veltu. Jón Bjarki segir erfitt að festa fingur á ástæðu þessa. „Hugsanlega hefur það áhrif að skiptar skoðanir eru á þessum kjarasamningi og hversu mikið hann mun koma til með að vera til hliðsjónar við gerð annarra samninga. Sú mynd var að skýrast á mánudaginn og fram á þriðjudagsmorguninn. Ég hef þó ekki heyrt talað jafn afgerandi um þessa þróun eins og um lækkunina á mánudaginn.“
Eftir standi að verðbólguálag hafi þokast niður á við frá síðustu stýrivaxtaákvörðun.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.