Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisskuldabréfa lækkaði um 0,03-0,10 prósentur og verðbólguálag lækkaði á skuldabréfamarkaðnum í dag. Veltan á skuldabréfamarkaðnum nam 4,8 milljörðum króna.
Aðalhagfræðingur Íslandsbanki telur að kjarasamningar SA og SGS, sem voru undirritaðir um helgina, séu fyrsta skrefið í átt að minni óvissu um verðbólguþróun næsta árs.
„Möguleg (og reyndar líkleg) skýring þessa eru kjarasamningar SGS og SA um helgina. Þótt enn sé mikil óvissa um hvernig aðrir semja í kjölfarið er þetta fyrsta skref mögulega að minnka óvissu um verðbólguþróun (og þar með vaxtaþróun) á næsta ári,“ skrifar Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, á Twitter.
Möguleg (og reyndar líkleg) skýring þessa eru kjarasamningar SGS og SA um helgina. Þótt enn sé mikil óvissa um hvernig aðrir semja í kjölfarið er þetta fyrsta skref mögulega að minnka óvissu um verðbólguþróun (og þar með vaxtaþróun) á næsta ári.
— Jón Bjarki (@JBentsson) December 5, 2022
Rólegt á hlutabréfamarkaðnum
Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,2% í 1,6 milljarða króna viðskiptum. Mesta veltan var með hlutabréf smásölufyrirtækjanna Haga og Festi. Gengi Haga stóð óbreytt í 72 krónum á hlut í 250 milljóna viðskiptum en Festi hækkaði um 2,8% í 157 milljóna veltu.
Fasteignafélagið Reitir lækkaði um 1,6%, mest af félögum aðalmarkaðarins, í 124 milljóna veltu. Gengi Reita stendur nú í 90,5 krónum á hlut.
Á First North-markaðnum var nær öll veltan með hlutabréf Alvotech sem hækkuðu um 7%. Nasdaq Iceland samþykkti beiðni Alvotech um töku hlutabréfa félagsins til viðskipta á aðalmarkaðnum.