Bæði verðtryggður og óverðtryggður ávöxtunarferill ríkistryggðra skuldabréfa er niðurhallandi sem gefur vísbendingar um að fjárfestar vænti lægri vaxta og verðbólgu í framtíðinni.
Samkvæmt Fjármálastöðugleikariti Seðlabanka Íslands hefur halli verðtryggða vaxtaferilsins aukist á árinu.
Í upphafi árs var 45 punkta munur á verðtryggðum vöxtum til 5 og 10 ára en í lok ágúst nam bilið 115 punktum.
Verðtryggða ávöxtunarkrafan til fimm ára hefur hækkað um 50 punkta á árinu á meðan 10 ára verðtryggða krafan hefur lækkað um 20 punkta.
Stutti endi verðtryggða vaxtaferilsins hefur þannig hækkað mikið á árinu eftir töluverða hækkun á ávöxtunarkröfu stysta verðtryggða ríkisbréfsins.
Óverðtryggðar ávöxtunarkröfur ríkisbréfa hafa lítið breyst á árinu, þó að greina megi flökt á milli mánaða, enda hafa meginvextir Seðlabankans haldist í 9,25% á tímabilinu.

„Velta á skuldabréfamarkaði fyrstu átta mánuði ársins nam um 1.174 ma.kr. og minnkaði um 2,8% á milli ára en veltan í fyrra var mesta ársvelta síðan 2015. Þá hefur aðalvísitala skuldabréfamarkaðarins, NOMXIBB, hækkað um 4,7% á árinu en hækkaði um 4% á síðasta ári,“ segir í Fjármálastöðugleika
Verðbólguálag til skamms tíma hefur lækkað nokkuð á árinu. Álagið til eins árs hefur lækkað um 180 punkta og álagið til tveggja ára um 140 punkta.
Verðbólguálag til skamms tíma hefur ekki verið jafn lágt síðan sumarið 2021 eða í um þrjú ár sem kann að endurspegla aukna trú fjárfesta á að aðhald peningastefnunnar sé farið að hafa tilætluð áhrif.
Hjöðnun verðbólgu og skammtímaverðbólguvæntingar hafa leitt af sér töluverða hækkun raunvaxta á árinu enda hafa meginvextir Seðlabankans verið óbreyttir í rúmt ár.
