Ársverðbólga í Bretlandi mældist 1,7% í septembermánuði og fór þannig undir 2% verðbólgumarkmið Englandsbanka í fyrsta sinn í þrjú ár.
Samkvæmt The Wall Street Journal eykur þetta líkurnar töluvert á vaxtalækkun í næsta mánuði.
Verðbólga á ársgrundvelli mældist 2,2% í ágústmánuði og höfðu hagfræðingar spáð því að verðbólgan yrði um 1,9% í september.
Sterlingspundið veiktist um 0,5% gagnvart Bandaríkjadal um leið og tölurnar voru kynntar.
Kjarnaverðbólga lækkaði einnig milli mánaða og mældist 3,2% á ársgrundvelli sem er lækkun úr 3,6% í ágústmánuði.
„Við sjáum loksins ljósið við enda ganganna í baráttunni við verðbólguna,“ segir Joe Nellis, efnahagsráðgjafi hjá MHA, í samtali við WSJ.