Verðbólgan virðist ætla reyna Bandaríkjamönnum þrálát en vinnumálaráðuneytið greindi frá því í dag að ársverðbólga í febrúar mældist 3,2%.
Greiningaraðilar vestanhafs höfðu spáð að ársverðbólgan yrði óbreytt í 3,1% en kjarnaverðbólga sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum hækkaði um 0,4% milli mánaða og mældist 3,8%. Hagfræðingar höfðu spáð um 0,1% hækkun milli mánaða.
Vonast eftir vaxtalækkun í júní
Peningastefnunefnd bandaríska seðlabankans kemur saman í næstu viku en allar líkur eru á því að nefndin muni halda stýrivöxtum óbreyttum líkt.
Nefndin hefur haldið vöxtum óbreyttum á síðustu þrem fundum sínum en vextir í Bandaríkjunum eru 5,25% til 5,5% og hafa ekki verið hærri í 22 ár.
Samkvæmt The Wall Street Journal eru fjárfestar vongóðir um að Jerome Powell seðlabankastjóri standi við stóru orðin og lækki vexti að minnsta kosti þrisvar á árinu.
Markaðshreyfingar benda til þess að fjárfestar séu að búast við fyrstu vaxtalækkun í júní en á meðan verðbólgan helst þrálát og vinnumarkaðurinn sterkur er ekki víst að Powell muni lækka vexti fyrr en þörf er á.