Verð­bólgan virðist ætla reyna Banda­ríkja­mönnum þrá­lát en vinnu­mála­ráðu­neytið greindi frá því í dag að árs­verð­bólga í febrúar mældist 3,2%.

Greiningar­aðilar vestan­hafs höfðu spáð að ársverðbólgan yrði óbreytt í 3,1% en kjarna­verð­bólga sem undan­skilur sveiflu­kennda vöru­flokka í mat­væla- og orku­geiranum hækkaði um 0,4% milli mánaða og mældist 3,8%. Hagfræðingar höfðu spáð um 0,1% hækkun milli mánaða.

Vonast eftir vaxtalækkun í júní

Peninga­stefnu­nefnd banda­ríska seðla­bankans kemur saman í næstu viku en allar líkur eru á því að nefndin muni halda stýri­vöxtum ó­breyttum líkt.

Nefndin hefur haldið vöxtum ó­breyttum á síðustu þrem fundum sínum en vextir í Banda­ríkjunum eru 5,25% til 5,5% og hafa ekki verið hærri í 22 ár.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal eru fjár­festar von­góðir um að Jerome Powell seðla­banka­stjóri standi við stóru orðin og lækki vexti að minnsta kosti þrisvar á árinu.

Markaðs­hreyfingar benda til þess að fjár­festar séu að búast við fyrstu vaxta­lækkun í júní en á meðan verð­bólgan helst þrá­lát og vinnu­markaðurinn sterkur er ekki víst að Powell muni lækka vexti fyrr en þörf er á.