Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 1,67% í viðskiptum dagsins og var lokagildi hennar 2.427,50 en meira en hálft ár er síðan gildið var jafn hátt.
Um er að ræða sjöunda viðskiptadaginn í röð sem úrvalsvísitalan hækkar en slíkt hefur ekki gerst áður í ár. Vístalan hefur núna hækkað um 7,16% á rúmum tveimur vikum.
Nær öll skráð félög hækkuðu í viðskiptum dagsins en mikil velta var í morgun eftir að Hagstofan birti verðbólgutölur.
Heildarvelta á markaði nam 7,6 milljörðum króna og var mesta veltan með bréf Kviku banka.
Hlutabréfaverð Kviku banka hækkaði um 1,6% í 1,3 milljarða króna viðskiptum. Næstmesta veltan var með bréf Marels sem hækkaði um 1,5% í milljarðs króna veltu.
Hlutabréf í Alvotech hækkuðu mest í viðskiptum dagsins er gengi líftæknilyfjafélagsins hækkaði um tæp 5% í tæplega 600 milljón króna veltu.
Dagslokagengi Alvotech var 1.605 krónur.
Gengi Kaldalóns hækkaði um 4,5% í 470 milljón króna veltu á meðan gengi Ölgerðarinnar fór upp um rúm 4% í 414 milljón króna veltu.
Svo virðist sem útgerðarfélögin á markaði nytu minnst góðs af jákvæðum verðbólgutölum en gengi Ísfélagsins, Síldarvinnslunnar og Iceland Seafood International stóðu í stað í viðskiptum dagsins. Gengi Brims lækkaði örlítið í örviðskiptum.