Verðbólga mældist 4,2 prósent á ársgrundvelli í febrúar en hún stóð í 4,6% í janúar. Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,91% en útsölulok spiluðu þar stórt hlutverk auk þess sem verð á mat og drykkjarvörum hækkuðu umfram spár.
Um er að ræða síðustu verðbólgumælinguna fyrir næstu stýrivaxtaákvörðun en peningastefnunefnd Seðlabankands kemur til fundar þann 19. mars. Nefndin hefur lækkað vexti á síðustu þremur fundum, þar af um 50 punkta á síðustu tveimur fundum, og standa stýrivextir nú í 8%.
Greiningardeild Landsbankans gerði ráð fyrir örlítið meiri verðbólgu í febrúar en nýjasta spá gerir áfram ráð fyrir að verðbólga fari í 3,9% í marsmánuði. Í apríl mánuði fari hún upp í 4,1% en verði 3,8% í maí.
„Spáin er ekki mikið breytt frá síðustu spá. Hækkun á milli mánaða í apríl skýrist að mestu af áhrifum páskanna á flugfargjöld til útlanda. Fyrstu dagar páskanna í fyrra voru í mars og áhrif þeirra á flugfargjöld komu fram bæði í mars og apríl. Nú eru páskarnir seint í apríl og gerum við því ráð fyrir að áhrif á hækkun flugfargjalda komi að öllu leyti fram þá,“ segir í greiningu Landsbankans.
Greiningardeild Íslandsbanka telur að tveir þættir skýri óvenju mikla hækkun á mat og drykkjavörum, annars vegar áhrifa vegna erfiðra aðstæðna við uppskeru ýmissar hrávöru á borð við kaffi og kakó t.d. og hins vegar vegna umsamdra launahækkana sem tóku gildi um áramótin.
Næstu mánuði ætti hækkun matvælaverðs að vera hægari en þó sé óvissa til staðar hvað varðar uppskeru á ýmsum hrávörum, sem og mögulegt tollastríð. Greiningardeild bankans gerir nú ráð fyrir að verðbólga fari niður í 3,8% í mars, 3,7% í apríl, og 3,4% í maí.
„Nýgerðir kjarasamningar hins opinbera við kennara gætu haft nokkur áhrif á verðbólguþróun þegar fram í sækir þó þeir hafi eytt nokkurri óvissu sem að viðræðunum sneri. Fyrsta kastið verða þó áhrifin væntanlega minniháttar og snúast fyrst og fremst um heldur meiri neyslugetu hjá þeim hluta launafólks og trúlega minna aðhald opinberra fjármála. Með tímanum gæti þó launaskrið á vinnumarkaði almennt aukist fyrir vikið og síðast en ekki síst hefur óvissa um hvað tekur við í lok samningstímabils núverandi samninga vaxið að okkar mati,“ segir í greiningu Íslandsbanka.
„Þar að auki er óvissa af pólitíska sviðinu sem og í alþjóðamálum og miklar vendingar í þeim efnum kunna að breyta myndinni töluvert. Verðbólgumæling mánaðarins ætti þó að reynast peningastefnunefnd gott veganesti við næstu vaxtaákvörðun.“