Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna undirbýr nú mögulega lögsókn á hendur bandaríska verðbréfafyrirtækinu Robinhood vegna meintra brota dótturfélags þess, Robinhood Crypto, á verðbréfalögum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Robinhood, en þar segir einnig að fyrirtækið hafi á undanförnum árum unnið í góðri trú með eftirlitinu til að tryggja að rafmyntaviðskipti félagsins séu í samræmi við lög.
Möguleg lögsókn eftirlitsins snýr líklega að því hvort tilteknar rafmyntir sem Robinhood býður upp á flokkist undir verðbréf og að viðskiptavinir Robinhood Crypto njóti sömu fjárfestaverndar og verðbréfafjárfestar.
Eftirlitið sendi formlega áminningu (e. Wells notice) til félagsins síðastliðna helgi sem gefur því tækifæri til að bregðast við áhyggjum eftirlitsins og færa rök gegn því að hafin verði lögsókn á hendur fyrirtækinu.