Skerðingar á raforku á fyrstu mánuðum þessa árs munu hafa í för með sér að útflutningstekjur Íslands verða ríflega 8-12 milljörðum króna lægri en ella samkvæmt greiningu Samtaka iðnaðarins (SI).
Það samsvarar um 1,1-1,6% af heildarútflutningstekjum íslensks iðnaðar ársins 2022, þar með talið hugverkaiðnaðar, sem námu um 760 milljörðum króna.
Landsvirkjun tilkynnti rétt fyrir jól að stórnotendur á suðvesturhluta landsins – Elkem, Norðurál og Rio Tinto auk fjarvarmaveita – myndu sæta skerðingum á orku til starfsemi þeirra frá 19. janúar og gert er ráð fyrir að þær geti staðið allt til 30. apríl næstkomandi. Almennt nemur skerðingin um 10% á mánuði, en það er þó misjafnt eftir samningum.
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir að mat samtakanna á þeim útflutningstekjum sem þjóðarbúið verði af miði einungis við þær skerðingar sem þegar hefur verið tilkynnt um á fyrstu mánuðum ársins. Áhrif á útflutningstekjur í ár yrðu enn meiri ef grípa þarf til skerðinga næsta vetur, eins og útlit er fyrir.
Mat SI nær aðeins utan um bein áhrif á álver og gagnaver en framleiðsla þeirra dregst eðli málsins samkvæmt saman við raforkuskerðingar.
Fjallað er nánar um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér.