Útflutningstekjur iðnaðar námu 698 milljörðum króna í fyrra sem eru 38% af heildarútflutningstekjum þjóðarbúsins. Til samanburðar námu útflutningstekjur ferðaþjónustunnar á síðasta ári 598 milljörðum (32%) og sjávarútvegs 352 milljörðum (19%). Þetta kemur fram í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins (SI) þar sem bent er á að iðnaður sé stærsta útflutningsgrein hagkerfisins.

Tekjur iðnaðar af útflutningi á áli og kísiljárni námu samkvæmt greiningu SI 370 milljörðum á síðasta ári. Útflutningstekjur af þessum hluta iðnaðar drógust saman á milli áranna 2022 og 2023 en árið 2022 námu þær 466 milljörðum. Ástæða samdráttarins sé verðlækkun á afurðum ásamt áhrifum af skerðingu raforku á útflutning greinarinnar.

Í greiningu SI segir að samdrátturinn í útflutningstekjum áls og kísiljárns hafi valdið því að heildarútflutningstekjur iðnaðar drógust saman á milli áranna 2022 og 2023 um 75 milljarða, eða tæplega 10%. Fóru þær úr 773 milljörðum niður í 698 milljarða. Á móti samdrætti í útflutningi áls og kísiljárns hafi þó vegið vöxtur í útflutningstekjum hugverkaiðnaðar.

Þessi þróun hafi haldi áfram í ár en útflutningstekjur iðnaðar hafi dregist saman um 7% á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs og numið 224 milljörðum, samanborið við 232 milljarða á sama tíma í fyrra. Ástæða samdráttarins á þessu ári sé sú sama og í fyrra, þ.e. samdráttur í útflutningstekjum áls og kísiljárns. Skerðing Landsvirkjunar á raforku hafi haldið áfram að hafa neikvæð áhrif á tekjur og afkomu greinarinnar í ár. Til marks um það hafi útflutningstekjur orkusækins iðnaðar minnkað um 14-17 milljarða á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs vegna skerðingarinnar. Samdráttur í útflutningstekjum áls hafi numið 9-10 milljörðum og skýri það um tvo þriðju af samdrætti í útflutningstekjum orkusækins iðnaðar á tímabilinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.