Fyrir helgi hlaut Kristján Ásgeirsson, eigandi Heitirpottar.is, verðlaunin 2023 Dealer of the Year á ráðstefnu Arctic Spas sem haldin var í Mexíkó.

Þetta er í fyrsta sinn sem fyrirtæki hlýtur tvenn verðlaun frá Arctic Spas á sama árinu en Heitirpottar.is voru að vinna þessi verðlaun fimmta árið í röð. Þá hefur engin önnur verslun unnið verðlaunin jafn oft í 35 ára sögu Arctic Spas.

Kristján og samstarfsmenn hans klæddu sig upp sem Mexíkanar við verðlaunaafhendinguna.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Við klæddum okkur upp eins og Mexíkanar við verðlaunaafhendinguna, við mikinn fögnuð viðstaddra en 250 manns sóttu ráðstefnuna á þessu ári í Mexíkó,“ segir Kristján.

Hann bætir við að sala á heitum pottum á Íslandi sé ótrúleg í samanburði við önnur lönd en á Íslandi er rúmlega 1 pottur fyrir hverja 500 íbúa. „Kanadamenn og aðrir sem selja heita potta skilja ekki hversu mikið er hægt að selja hér miðað við höfðatölu.“

Kristján hefur áður sagt að heitir pottar séu rosalega góð fjárfesting fyrir geðheilsuna og þá sérstaklega í skammdeginu. Hann segir pottinn sameina fjölskylduna og að það þurfi ekki alltaf að kaupa iPad eða utanlandsferð til að gleðja fjölskylduna.

„Það er heldur ekki hægt að koma úr pottinum í vondu skapi,“ bætir Kristján við.