Kínverska fatanetverslunin Shein tryggði sér 1-2 milljarða dala fjármögnun í nýjustu fjármögnunarlotu fyrirtæksins. Við þetta er fyrirtækið orðið 100 milljarða dala virði og eitt af verðmætustu fyrirtækjum heims, að því er kemur fram í grein hjá Wall Street Journal.

Þannig er Shein orðið meira virði en samanlagt markaðsvirði H&M og fataheildsalans Inditex sem á fataverslanir á borð við Zara, Pull and Bear og Bershka. Shein var metið á 15 milljarða dali árið 2020 og hefur virði félagsins því rúmlega sjöfaldast á tveimur árum.

Í faraldrinum jók Shein markaðshlutdeild sína verulega á bandarískum markaði og er nú orðið að stærsta fatasmásala Bandaríkjanna þegar litið er til sölu, stærri en H&M, Zara og Forever 21.

Shein er ekki með neinar hefðbundnar verslanir og fer öll fataverslunin fram á netinu. Fyrirtækið sendir föt til meira en 150 landa um allan heim, en fötin eru að mestu leyti framleidd í Kína.