Orri Hauksson, sem lét í haust af störfum sem forstjóri Símans eftir tæp ellefu ár í starfi, er í ítarlega viðtali í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Í viðtalinu fer hann um víðan völl og ræðir meðal annars um alþingiskosningarnar sem fóru fram í lok nóvember.

Þegar viðtalið við Orra fór fram voru örfáir dagar í alþingiskosningar. Það sem honum þótti helst standa upp úr í kosningabaráttunni var skortur á alvöru umræðu um hvernig megi stuðla að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífinu, landsmönnum til heilla.

„Það var sífellt verið að ræða um hvernig ætti að útdeila verðmætunum gegnum aukna skattheimtu á tilteknar atvinnugreinar eða einstaklinga. Lítil umræða var aftur á móti tekin um hvernig megi auka verðmæti landsmanna. Fókusinn var um of á þessa kranahagfræði, svona eins og sköpun virðis sé fasti, sem megi sækja með því einu að skrúfa frá krana. Við erum með nýlegt dæmi um frábærlega heppnaða innspýtingu inn í íslenskt hagkerfi,“ segir Orri og vísar þar til 175 milljarða króna sölu á íslenska lækningavörufyrirtækinu Kerecis til Coloplast

Hann bendir á að árangur Kerecis sé engin tilviljun. „Fyrir utan þrekvirki stofnandans, Guðmundar Fertram Sigurjónssonar, við að byggja upp félagið og gera úr því geysimikil verðmæti, voru einnig aðrir bakkraftar að verki. Við erum með öflugan sjávarútveg, gott nýsköpunarumhverfi og fyrirsjáanlega stjórn fiskveiða. Það var því engin slembilukka að Kerecis ævintýrið fann sér sköpunarstað á Íslandi en ekki annars staðar.“

Í ljósi þessa sé miður að verðmætasköpunin fái takmarkað pláss í umræðunni. „Einhverjir flokkar eru með það á ofarlega stefnuskrá sinni að stuðla að aukinni verðmætasköpun, sem er gott, en popúlísk útdeilingarstefna nær of oft að verða ofan á í umræðunni. Ég tek þó hatt minn ofan fyrir öllum sem gefa sig að stjórnmálastarfi. Maður er ekki sáttur við öll áherslumálin, en þetta er oft vanþakklátt starf sem einhver þarf að sinna.“

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.