Greiningarfyrirtækið Jakobsson Capital gaf út nýtt verðmat á Íslandsbanka í byrjun vikunnar, í kjölfar birtingar á uppgjöri bankans fyrir árið 2022. Samkvæmt greiningu Jakobsson Capital er nýtt verðmatsgengi á Íslandsbanka 129 krónur á hlut, eða um 259 milljarðar króna að markaðsvirði.
Fyrra verðmat Jakobsson Capital hljóðaði upp á 132 krónur á hlut, eða 263 milljarða. Því lækkar verðmatið um tæplega 2%. Verðmatið byggir á núvirðingu hagnaðar og er framtíðarvöxtur áætlaður 3,5%.
Dagslokagengi Íslandsbanka í gær var 126,6 krónur á hlut og matið því nær 2% yfir því gengi.
Fram kemur í verðmatinu að allar líkur séu á því að róður viðskiptabankanna muni þyngjast á næstu tveimur árum. Verðbólgan hafi verið þrautseig og innlendar launahækkanir mjög miklar í alþjóðlegum samanburði.
Þá er gert ráð fyrir að tími jákvæðra virðisbreytinga hjá bönkunum sé liðinn og tími eðlilegra ástands, þar sem 0,25 til 0,3% af útlánasafninu eru virðisrýrð, sé að ganga í garð.
Nánar er fjallað um verðmat Jakobsson Capital á Íslandsbanka í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun.