Greiningarfyrirtækið Akkur, sem hóf nýlega störf, verðmetur hlutabréf Íslandsbanka á 164 krónur á hlut. Það er um 34% yfir núverandi hlutabréfaverði Íslandsbanka sem stendur í 122 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð.

Verðmatið er svokallað arðgreiðslulíkan þar sem arðgreiðslur og endurkaup eigin bréfa í framtíðinni eru núvirtar til lok árs 2024.

„Gert er ráð fyrir að arðgreiðslur og endurkaup eigin bréfa verði töluverð á næstu 3 árum eða um 45% af núverandi markaðsvirði,“ segir í greiningunni.

Verðmatið hækkar um 11% í bjartsýnissviðsmynd

Í verðmatinu, sem Akkur birti í styttri útgáfu opinberlega í morgun, er einnig gefin upp verðmat út frá bjartsýnni sviðsmynd en þá sem ofangreint verðmat byggir á.

Í bjartsýnu sviðsmyndinni, sem gerir m.a. ráð fyrir meiri vexti í lánabók, meiri tekjuvexti í ‏‎eignastýringu og öðrum þóknanatekjum og örlítið hærri vaxtamun, er verðmatsgengi Íslandsbanka 182 krónur á hlut, sem er tæplega helmingi hærra en markaðsgengi hlutabréfa bankans.

Akk­ur – Grein­ing og ráðgjöf sér­hæf­ir sig í að gefa út verðmöt og grein­ing­ar fyr­ir bæði ein­stak­linga og lögaðila. Stofn­andi Akk­urs er Al­ex­and­er Jen­sen Hjálm­ars­son, fyrrverandi forstöðumaður hjá Stoðum og aðstoðarsjóðsstjóri Gamma.