Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, benti í ræðu sinni á aðalfundi félagsins, sem fram fór síðdegis í gær, að það væri ekki sjálfgefið að reka íslenskt flugfélag með höfuðstöðvar á Íslandi. Þrátt fyrir að Icelandair sé stanslaust að huga að kostnaði og hvernig sé hægt að lágmarka hann, þá geri félagið sér fulla grein fyrir því að flugfélag á Íslandi geti aldrei verið leiðandi á alþjóðlegum mörkuðum hvað varðar kostnað. „Til þess erum við allt of lítil og búum við rekstrarumhverfi sem einkennist af háum kostnaði. Við verðum því að vinna leikinn á tekjuhliðinni og þar höfum við byggt upp mjög sterka innviði og sérstöðu á síðustu áratugum sem eru svo sannarlega að skila sér núna,“ sagði Bogi og nefndi svo eftirfarandi dæmi:

  • Réttu vöruna sem hentar umhverfinu sem félagið starfar í. Eins og við höfum oft sagt þá gætum við lækkað einingarkostnað um tugi prósenta með því að fjölga sætum um borð og þar með draga úr þægindum og sveigjanleika en okkar greiningar segja að einingartekjur myndu lækka meira.
  • Í öðru lagi leggjum við mikla áherslu á góða þjónustu og ánægju viðskiptavina.
  • Þá er Icelandair vörumerkið ótrúlega sterkt miðað við stærð félagsins og Íslands.
  • Í fjórða lagi höfum við byggt upp öflugt sölu- og dreifinet og gríðarlega sterkt samband við ferðaþjónustaðila á öllum okkar mörkuðum.
  • Í fimmta lagi þá erum við með aðgang að kjör lendingar- og afgreiðslutímum á eftirsóttustu flugvöllum beggja vegna Atlantshafsins.
  • Að lokum getum við hámarkað tækifæri leiðakerfisins í gegnum fjölmarga samstarfssaminga við önnur flugfélög í Norður Ameríku og Evrópu sem stækka okkar leiðarkerfi og þannig boðið farþegum okkar enn fleiri tengimöguleika.

„Það má með sanni segja að árið 2022 hafi verið mikið umbreytingarár í rekstri félagsins, eftir talsverð covid áhrif í byrjun ársins fór allt í gang í júní og í lok ársins var framboð okkar í leiðakerfinu farið að nálgast það sem það var 2019. Þessi endurræsing gekk vel og erum við mjög ánægð með hafa skilað hagnaði fyrir skatta á árinu, í fyrsta sinn síðan 2017,“ sagði Bogi.

Bogi benti á að heildartekjur félagsins hafi numið 1.265 milljónum og aukist um 116% á milli ára. „Einingatekjur jukust um 23% og var aukning þeirra 25% á milli áranna 2019 og 2022. Áhersla okkar á að auka nýtingu á Saga Class farrýminu skilaði góðum árangri sem hafði mikil áhrif á þessa jákvæðu þróun en hún jókst um 19 prósentustig og einingatekjurnar þar um 48%.“

Góður rekstur, miðað við aðstæður, og sterkt sjóðstreymi á síðasta ári geri það að verkum að félagið standi styrkum fótum og sé vel í stakk búið til að taka félagið inn í framtíðina.

„Kjarninn í viðskiptalíkani Icelandair er leiðakerfið sem við höfum byggt upp á undanförnum áratugum. Í því höfum við nýtt einstaka staðsetningu Íslands í miðju Atlantshafinu til að byggja upp öfluga tengimiðstöð milli Evrópu og Norður Ameríku. Í því samhengi hefur Ísland, bæði land og þjóð, mikla þýðingu fyrir okkur. Við erum íslenskt félag og með þá stefnu að halda merkjum Íslands á lofti um allan heim og á sama tíma hafa góð áhrif á íslenskt samfélag og efnahag,“ sagði Bogi.

83 milljarða skattspor frá 2019

Guðmundur Hafsteinsson, stjórnarformaður Icelandair, var kjörinn í stjórn félagsins á ný á aðalfundinum og um leið ákveðið að hann myndi áfram gegna formennsku. Sjálfkjörið var í stjórnina en ásamt Guðmundi voru John F. Thomas, Matthew Evans, Nina Jonsson og Svafa Grönfeldt kjörin í stjórn flugfélagsins.

Rétt eins og Bogi Nils hélt Guðmundur ræðu á fundinum. Gerði hann m.a. að umtalsefni hversu hröð enduruppbygging félagsins undanfarin misseri hefur skipt sköpum fyrir endurreisn íslenskrar ferðaþjónustu, efnahagslíf og samfélagið í heild. Þá ræddi hann rekstrarskilyrði fyrirtækja í flugi og ferðaþjónustu, fyrirhugaða löggjöf Evrópusambandsins varðandi losunarskatt og mikilvægi hvata stjórnvalda í stað skattlagningar til að stuðla að sjálfbærri þróun í flugi.

„Bein áhrif af starfsemi Icelandair sjást meðal annars í skattspori félagsins en á síðasta ári var það um 26,5 milljarðar króna og samtals í kringum 83 milljarðar króna frá árinu 2019. Í takt við aukin umsvif í kjölfar faraldursins, hefur starfsmannafjöldi aukist talsvert á ný en félagið réði um eitt þúsund starfsmenn á síðasta ári.

Til viðbótar eru jákvæð óbein áhrif af starfsemi Icelandair gríðarleg. Sem dæmi, fluttum við um 740 þúsund ferðamenn til landsins á árinu 2022 sem samkvæmt opinberum tölum keyptu vörur og þjónustu hér á landi fyrir um 145 milljarða króna á meðan á dvöl þeirra stóð. Icelandair hefur einnig mikilvægu hlutverki að gegna fyrir íslenskan sjávarútveg en félagið sinnir útflutningi á ferskum fiski með flugi á markaði í Evrópu og Norður Ameríku.

Forsendan fyrir því að tryggja sjálfbæra framtíð og verja mikilvægan ávinning af flugi og ferðaþjónustu eru góð rekstrarskilyrði. Hér þarf að huga að bæði að rekstrarumhverfinu hérlendis og alþjóðlega,“ sagði Guðmundur meðal annars.

Næst beindi Guðmundur sjónum að fyrirhugaðri löggjöf Evrópusambandsins sem tekur meðal annars til losunarskatts á flugferðir og kröfu um íblöndun sjálfbærs flugvélaeldsneytis.

„Gallinn á þessari löggjöf er hins vegar sá að hún hefði í för með sér að aukinn kostnaður vegna kolefnislosunar myndi leggjast á lönd eins og Ísland umfram önnur lönd, einungis vegna landfræðilegrar stöðu. Það myndi skerða samkeppnisstöðu íslenskra flugfélaga gagnvart erlendri samkeppni verulega sem og Íslands sem tengimiðstöðvar í flugi. Flug til, frá og um Ísland myndi því einfaldlega færast annað, þar sem kostnaður yrði ekki jafn íþyngjandi.

Nái þetta fram að ganga yrðu áhrifin gríðarleg, ekki einungis fyrir Icelandair og íslenska ferðaþjónustu, heldur allt íslenskt atvinnulíf – fiskútflutning og önnur viðskipti – sem og lífsgæði almennings hér á landi.

Ísland hefur og á að hafa metnað til þess að ná árangri í loftslagsmálum. Með þessari útfærslu verður markmiðinu að draga úr kolefnislosun hins vegar ekki náð þar sem flugið myndi einungis færast til. Þvert á móti, eins og við höfum bent á, þá er til dæmis almennt umhverfisvænna að fljúga Boeing 737-MAX flugvélum milli Evrópu og Norður-Ameríku með viðkomu á Íslandi frekar en að fljúga á breiðþotu með beinu flugi yfir Atlantshafið.

Það er óhætt að segja að þetta sé stærsta hagsmunamál Íslands frá upptöku EES samningsins. Því sem eyja í miðju Atlantshafi eigum við allt undir öflugum flugsamgöngum. Við fögnum því að íslensk stjórnvöld séu að vinna að því hörðum höndum að verja hagsmuni Íslands og tryggja að við berum jafnar byrðar og önnur Evrópulönd þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum. Við gerum auðvitað ráð fyrir því að Ísland muni ekki taka þátt í aðgerðum sem muni draga úr samkeppnishæfni íslenskra flugfélaga og íslensks atvinnulífs í heild sinni.“

Guðmundur lauk svo ræðu sinni á skilaboðum til íslenskra stórnvalda.

„Við þurfum líka að huga að rekstrarumhverfinu hér heima. Að hér séu ekki settir séríslenskir skattar og gjöld á flug. Þvert á móti þá köllum við eftir að stað aukinna skatta og gjalda verði frekar settir fram hvatar og stuðningur stjórnvalda við sjálfbæra þróun í flugi. Það er það sem mun hraða þróun nýrrar tækni og þar með orkuskiptum og á sama tíma styrkja samkeppnishæfni Íslands. Því það er sterk samkeppnisstaða Íslands sem áfangastaðar og sem tengimiðstöðvar í flugi sem skilar mestum ávinningi fyrir land og þjóð og gerir fjölmörgum fyrirtækjum eins og Icelandair kleift að halda merkjum Íslands á lofti út um allan heim, hér eftir sem hingað til.“