Kampavín frá Frakklandi og ítalskur parmesanostur eru meðal þeirra vara sem gætu orðið fyrir barðinu á nýjustu tollum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta á innfluttar vörur frá ESB, skyldu þeir verða að veruleika.
Trump hótaði í síðasta mánuði 25% viðbótartollum á innfluttar vörur frá Evrópusambandinu en hann segir að sambandið hafi verið stofnað til að koma höggi á Bandaríkin.
Samkvæmt FT fluttu evrópskir matvæla- og drykkjarframleiðendur út vörur fyrir 38 milljarða evra til Bandaríkjanna árið 2024. Aftur á móti flutti sambandið aðeins inn 14 milljarða evra virði af bandarískum vörum.
Filippo Marchi, framkvæmdastjóri ítalska mjólkurfyrirtækisins Granarolo, sem flytur út parmesanost til Bandaríkjanna, segir að áhrifin á sölumagnið gætu verið mjög mikil.
Breytt og dýrara landslag
Evrópskir matvæla- og vínframleiðendur sluppu tiltölulega vel árið 2019 þegar Trump lagði 25% toll á ýmsar evrópskar vörur. Hann hafði þá verið í deilum við ESB um þá styrki sem flugvélaframleiðandinn Airbus fékk frá sambandinu.
Síðan þá hefur kílóverðið á parmesanosti hins vegar hækkað og myndi 25% tollur hækka heildsöluverði ostsins um tæp 50% miðað við verðlagið fyrir tveimur árum síðan.
Bandaríkin eru þar að auki stærsti útflutningsmarkaður Frakklands fyrir léttvín og sterkt vín en salan nam 3,8 milljörðum evra á síðasta ári. Árið 2023 voru hátt í 27 milljón kampavínsflöskur, að verðmæti 800 milljónir evra, fluttar til Bandaríkjanna.
„Við verðum bara að byrja að flytja þessar vörur út eitthvert annað,“ segir Alexandre Chartogne hjá kampavínsfélaginu Chartogne-Taillet, sem selur 30% af árlegri framleiðslu sinni til Bandaríkjanna.