Nauðsynlegt er að endurskoða lögin um jafnlaunavottun og mögulega hækka þann starfsmannafjölda, sem fyrirtæki þurfa að hafa til að vera skyldug til jafnlaunavottunar.
Þetta segir Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar og oddviti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, í Kaffikróknum, hlaðvarpsþætti Félags atvinnurekenda (FA).
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, rifjaði upp að Viðreisn hefði beitt sér fyrir lagaskyldu til jafnlaunavottunar þegar flokkurinn sat í ríkisstjórn. Hann sagðist geta fullyrt að stjórnendur fyrirtækja með t.d. á bilinu 25-100 starfsmenn væru komnir með gjörsamlega upp í kok af jafnlaunavottunarferlinu, sem fæli í sér gríðarlega skriffinnsku og vinnu, án sýnilegs árangurs. Hann spurði hvort Viðreisn ætlaði að halda lagaskyldunni til streitu.
Hanna Katrín sagði að allir ættu að geta verið sammála um að kynbundinn launamunur ætti ekki að eiga sér stað og vinna þyrfti gegn því sem eftir væri af honum. Hún rifjaði upp að frumkvæði að jafnlaunavottun hefði komið frá aðilum vinnumarkaðarins, meðal annars Samtökum atvinnulífsins, og verið samþykkt með yfirgnæfandi þingmeirihluta.
„Síðan hefur málið ekki verið endurskoðað inni á þingi. Það er auðvitað eðlilegt að gera það, í sjálfu sér óháð allri gagnrýni,“ sagði Hanna Katrín og sagði að tvennt þyrfti að koma til skoðunar, „annars vegar stærðartakmörkunin á lagaskylduna og hins vegar hvort þetta eigi alveg að vera valkvætt yfir höfuð ... hvort við erum komin það langt að fyrirtæki muni segja: Þetta hefur skilað slíkum árangri að við munum nýta okkur þetta af því að við erum að laða að okkur besta starfskraftinn þannig að nú getum við nýtt okkur það og gerum það áfram þótt þetta sé ekki slík lagaskylda.“
Gæti komið í stað jafnlaunavottunar
Hanna Katrín og Ólafur ræddu að væntanlegar væru EES-reglur um gegnsæi í launamálum, sem miðast við fyrirtæki með fleiri en 100 starfsmenn og kveða að verulegu leyti á um upplýsingagjöf um sömu atriði og jafnlaunastaðallinn, en án vottunarskyldunnar, sem Hanna Katrín sagðist heyra að fyrirtækjum þætti íþyngjandi.
„Þannig að þetta er eitthvað sem myndi, tæki Ísland þetta upp, koma í staðinn fyrir jafnlaunavottun og mér sýnist á öllu að þarna sé markmiðum náð að ákveðnu leyti en að einhverju leyti er þetta léttara fyrir fyrirtækin. Að sama skapi er meiri krafa um upplýsingagjöf.“
Hanna Katrín sagði að stóra svarið væri því að ekki ætti að hvika frá markmiðinu um að jafna launamun kynjanna.
„Ef það er hægt að gera þetta með minna íþyngjandi hætti á að sjálfsögðu að skoða það. Það hefur bara ekki verið gert í tíð fráfarandi ríkisstjórnar í sjö ár en Viðreisn er sannarlega tilbúin til þess.“
Undanþágur afurðastöðva frá samkeppnislögum hverfi
Ólafur spurði Hönnu Katrínu hvort Viðreisn myndi beita sér fyrir afnámi undanþágu kjötiðnaðarins frá samkeppnislögum, sem samþykkt var á Alþingi síðastliðið vor, og jafnvel líka undanþágu mjólkuriðnaðarins frá 2004.
„Já, við myndum vilja sjá þessar undanþágur hverfa. Það eru engin rök fyrir þeim út frá sjónarhóli neytenda, skattgreiðenda eða fyrirtækja sem eru að berjast á þessum markaði. Eftir því sem við fáum best séð eru bændur heldur ekki að ríða feitum hesti frá þessum undanþágum. Það er bara staðan. Ef við getum ekki byggt hér upp samfélag þar sem mikilvægur atvinnurekstur, eins og landbúnaður er, fær að þrífast án þess beinlínis að kippa samkeppnislögum úr sambandi, þar sem við afnemum bann við samráði, þá er eitthvað mikið að hjá okkur.“
Hanna Katrín bætti við að undanþága kjötiðnaðarins sem samþykkt var í vor virtist hafa farið í gegnum Alþingi eins og eitthvert slys og að sumir núverandi stjórnarflokka væru á harðahlaupum frá málinu.
Ólafur rifjaði þá upp að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, viðurkenndi í Kaffikróknum að of langt hefði verið gengið en Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, varði lagabreytinguna með oddi og egg í þættinum.
Ólafur spurði út í annað mál sem þeir Bjarni deildu hart um í Kaffikróknum, en það eru afskipti fjármálaráðuneytisins af tollflokkun á pitsuosti, undir þrýstingi frá Mjólkursamsölunni. Framkvæmdastjóri FA spurði hvort Viðreisn myndi vinda ofan af slíku „apaspili“ og Hanna Katrín svaraði:
„Við myndum beita okkur fyrir því að vinda ofan af svona hlutum“ og bætti við: „Útgangspunkturinn hjá okkur er alltaf hagsmunir neytenda. Ég á mjög erfitt með að sjá fyrir mér nokkurn atvinnurekstur, þar með talið bændur, sem ekki njóta góðs af því að hagsmunir neytenda séu settir í forgang. Þá er eitthvað að ef það virkar ekki.“
Löggjafinn búinn að missa tök á áfengismarkaðnum
Ólafur spurði út í afstöðu Viðreisnar til endurskoðunar á áfengislöggjöfinni.
„Ég vona bara virkilega að næsta þing hafi það í sér að klára þetta. Viðreisn vill rýmka þessa löggjöf. Við sjáum ekki þau markmið sem eru fólgin í því að ríkið sé með einokunarstöðu í sölunni. Lýðheilsumarkmið felast fyrst og fremst í forvörnum.“
Hanna Katrín sagði að það versta sem hægt væri að gera væri að taka ekki af skarið og markaðurinn þróaðist áfram eins og hann væri að gera núna.
„Því að þegar einhver löggjöf er orðin barn síns tíma og fylgir ekki þróuninni í öðru, þá er bara duglegt fólk sem tekur boltann og fer að hlaupa. Og þá missir löggjafinn stjórn á hlutunum.“
Hanna Katrín var þó ekki tilbúin að kveða upp úr um að Viðreisn myndi beita sér fyrir lækkun á áfengissköttum, sem eru þeir hæstu í hinum vestræna heimi.
„Ástæðan fyrir því að þessi skattur er svona hár er líklega einmitt að þetta hefur lítil lýðheilsuáhrif. Fólk borgar þetta hvort sem er og þetta eru góðar og öruggar tekjur fyrir ríkissjóð. En auðvitað þarf að skoða þetta eins og aðra skattstofna, hvar er hægt að lækka. En fyrst verðum við að ná böndum á skuldastöðu ríkissjóðs og aga í ríkisfjármálum.“