Hjónin Karl Ólafur Hallbjörnsson og Védís Eva Guðmundsdóttir hafa tekið við rekstri frönsku sælkeraverslunarinnar Hýalín. Verslunin er staðsett við Skólavörðustíg 4a og hefur verið starfrækt síðan 2017.
Hýalín hefur alla tíð boðið upp á einstakar sælkeravörur frá Frakklandi og víðar frá meginlandi Evrópu, svo sem gæðaólífuolíu, súkkulaði, te og kaffi, foie gras, sardínur, hunang, krydd og fleira.
Karl Ólafur segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann hafi ávallt verið tíður gestur verslunarinnar og telur búðina vera mikinn gimstein fyrir Reykjavík.
„Við konan mín höfum bæði verið kúnnar hjá Hýalín til langs tíma. Ég hef alltaf haft mjög gaman af því að koma í búðina og nota mikið af því sem þeir eru að selja. Það eru ekki margar búðir sem selja svona gourmet sælkeradót.“
Hann segir að þau hjónin hafi verið í búðinni að kaupa í matinn í vetur þegar þau fréttu að það stæði til að selja hana. Þau voru mjög mædd yfir því en sáu hins vegar að eigendur höfðu birt auglýsingu um að reksturinn væri til sölu.
„Við vorum hálfhikandi með það en eftir smá tíma ákváðum við að henda í þetta og það hefur bara allt gengið vel. Við erum núna bara að klára eigendaskiptin og taka við öllum birgjasamböndum.“
Þá eru hjónin einnig búin að leggja inn pantanir fyrir nýjar sendingar og Karl segir að þær ættu að vera komnar síðla í febrúar. Búðin verður svo formlega enduropnuð í mars.
„Við ætlum að hafa þetta eins líkt og þetta hefur verið en það verða kannski einhverjar breytingar. Þeir hafa til dæmis ekki verið með vefverslun lengi, þannig við ætlum að reyna að henda því í loftið.“
Hýalín var upprunalega stofnað árið 2015 sem vínbar en á þeim tíma fannst eigendum ekki vera mikill markaður fyrir það. Búðin var síðan stofnuð 2017 og var fyrst til húsa á Hverfisgötu.
„Við höfum fengið mjög góðar viðtökur og fólk er mjög ánægt að þessi litla stofnun haldi áfram göngu sinni. Þetta verður áfram fjölskyldurekið fyrirtæki með dyggan hóp fastakúnna. Við erum bara stolt að halda því áfram og skoða svo ný tækifæri.“