Samningar um kaup alþjóðlega lækningavörufyrirtækisins Coloplast á öllu hlutafé Kerecis hafa verið undirritaðir og ráða nú hluthafar yfir 2/3 af heildarhlutafé félagsins. Heildarupphæðin jafngildir tæpum 180 milljörðum íslenskra króna en það eru ein stærstu viðskipti þessarar tegundar í sögu Íslands.
Í tilkynningu frá Kerecis segir að félagið verði rekið sem sjálfstæð eining innan Coloplast en hluthafar Kerecis við söluna eru um 400 talsins.
Kerecis mun einnig fá aðgang að innviðum og söluneti Coloplast um allan heim en tengslanet Coloplast nær til yfir 140 landa. Hingað til hefur stærstu hluti tekna Kerecis komið frá sölu í Bandaríkjunum. Sjúklingar í þeim löndum munu einnig fá aðgang að lækningavörum félagsins.
„Minn draumur með stofnun Kerecis var tvíþættur – að þróa aðferðir til að fækka aflimunum og græða sár, samhliða því að efla atvinnuþróun á Vestfjörðum. Hvoru tveggja hefur tekist og þessi samningur er sögulegur, þar sem vestfirskt sprotafyrirtæki er orðið eitt verðmætasta félag Íslandssögunnar,“ segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri og stofnandi Kerecis.
Að sögn Guðmundar verður skipulag fyrirtækis óbreytt og mun hann einnig halda áfram sem forstjóri félagsins.