Af­greiðslu­lager Sante í Skeifunni mun opna í septem­ber eða októ­ber á þessu ári en Arnar Sigurðs­son vín­inn­flytjandi í Sante segir að lagerinn verði stærsti vín­af­greiðslu­staður landsins.

„Þetta er nýtt kon­sept. Þetta verður við­burðar­rými þar sem fólk getur komið og smakkað vínin og jafn­vel leigt sali fyrir vín­tengda við­burði. Það verður líka þarna stór og mikill af­greiðslu­lager þar sem við­skipta­vinir geta sótt pantanir sínar í af­greiðslu­skápa., segir Arnar.

Vínafgreiðslulager Sante í Skeifunni,

„Þetta verður öðru­vísi. Þetta verður ekki svona sjálfs­af­greiðslu­fyrir­komu­lag eins og er til dæmis í ÁTVR eða Leifs­stöð þar sem eru komnir sjálfs­af­greiðslu­kassar. Kaupin munu eiga sér stað á netinu eins og verið hefur en svo með tímanum verða ró­bótar sem fylla á skápana baka til,“ segir Arnar.

„Við stefnum á að reyna að opna svona í septem­ber eða októ­ber. Þetta alla­vega þúsund fer­metra rými sem yrði stærsti vín­af­greiðslu­staður landsins. Þar sem það er verið að tala um að auka að­gengi að þessari vöru sem fólk er að biðja um,“ segir Arnar.

Framkvæmdir við húsnæðið í Skeifunni eru í fullum gangi.

Hvetur Sigurð Inga til að loka ÁTVR í Skeifunni

Líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá í gær kvartaði Sante til um­boðs­manns Al­þingis vegna „ó­eðli­legra pólitískra af­skipta“ Sigurðar Inga Jóhanns­sonar fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra af lög­reglu­rann­sókn.

Fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra sendi lög­reglunni bréf á mánu­daginn þar sem skoðunum hans á laga­um­hverfi á­fengis­sölu er lýst. Í bréfinu var því haldið fram að at­vinnu­starf­semi fyrir­tækja eins og Sante sé ó­lög­leg og sé ekki í anda lýð­heilsu­stefnu stjórn­valda.

Í sam­tali við Við­skipta­blaðið segir Arnar að hann sé með nær­tækt ráð fyrir þá sem vilja skerða að­gengi að á­fengi.

„Hann gæti lokað verslun ÁTVR í Skeifunni. Við getum alveg annað öllum þeim við­skipta­vinum sem þangað koma og gott betur,“ segir Arnar.

„Sigurður Ingi vill skerða að­gengi að á­fengi og ég held því sé nær­tækast að loka sem flestum búðum ÁTVR. Ekki nóg með að vöru­verðið sé 20% of hátt þá er kostnaðurinn yfir­gengi­legur. Þannig það eru marg­háttuð rök fyrir þessu. Þetta sjálfs­af­greiðslu­fyrir­komu­lag er auð­vitað ekki í anda neinna lýð­heilsu­sjónar­miða og svo er þetta skil­ríkja­eftir­lit þeirra alltaf í molum,“ segir Arnar en raf­ræn skil­ríki þarf til að versla við Sante á netinu.

Hægt er að sjá fleiri Konsept-myndir af afgreiðslulager Sante hér að neðan.

© Skjáskot (Skjáskot)