Afgreiðslulager Sante í Skeifunni mun opna í september eða október á þessu ári en Arnar Sigurðsson víninnflytjandi í Sante segir að lagerinn verði stærsti vínafgreiðslustaður landsins.
„Þetta er nýtt konsept. Þetta verður viðburðarrými þar sem fólk getur komið og smakkað vínin og jafnvel leigt sali fyrir víntengda viðburði. Það verður líka þarna stór og mikill afgreiðslulager þar sem viðskiptavinir geta sótt pantanir sínar í afgreiðsluskápa., segir Arnar.
„Þetta verður öðruvísi. Þetta verður ekki svona sjálfsafgreiðslufyrirkomulag eins og er til dæmis í ÁTVR eða Leifsstöð þar sem eru komnir sjálfsafgreiðslukassar. Kaupin munu eiga sér stað á netinu eins og verið hefur en svo með tímanum verða róbótar sem fylla á skápana baka til,“ segir Arnar.
„Við stefnum á að reyna að opna svona í september eða október. Þetta allavega þúsund fermetra rými sem yrði stærsti vínafgreiðslustaður landsins. Þar sem það er verið að tala um að auka aðgengi að þessari vöru sem fólk er að biðja um,“ segir Arnar.
Hvetur Sigurð Inga til að loka ÁTVR í Skeifunni
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær kvartaði Sante til umboðsmanns Alþingis vegna „óeðlilegra pólitískra afskipta“ Sigurðar Inga Jóhannssonar fjármála- og efnahagsráðherra af lögreglurannsókn.
Fjármála- og efnahagsráðherra sendi lögreglunni bréf á mánudaginn þar sem skoðunum hans á lagaumhverfi áfengissölu er lýst. Í bréfinu var því haldið fram að atvinnustarfsemi fyrirtækja eins og Sante sé ólögleg og sé ekki í anda lýðheilsustefnu stjórnvalda.
Í samtali við Viðskiptablaðið segir Arnar að hann sé með nærtækt ráð fyrir þá sem vilja skerða aðgengi að áfengi.
„Hann gæti lokað verslun ÁTVR í Skeifunni. Við getum alveg annað öllum þeim viðskiptavinum sem þangað koma og gott betur,“ segir Arnar.
„Sigurður Ingi vill skerða aðgengi að áfengi og ég held því sé nærtækast að loka sem flestum búðum ÁTVR. Ekki nóg með að vöruverðið sé 20% of hátt þá er kostnaðurinn yfirgengilegur. Þannig það eru margháttuð rök fyrir þessu. Þetta sjálfsafgreiðslufyrirkomulag er auðvitað ekki í anda neinna lýðheilsusjónarmiða og svo er þetta skilríkjaeftirlit þeirra alltaf í molum,“ segir Arnar en rafræn skilríki þarf til að versla við Sante á netinu.
Hægt er að sjá fleiri Konsept-myndir af afgreiðslulager Sante hér að neðan.