Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics, segir að stefna íslenskra eftirlitsstofnana vera skaðlega fyrir íslenskt efnahagslíf og komi í veg fyrir nýsköpun.
Samkvæmt skýrslu Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar (ESMA) virðast stjórnvaldssektir á íslensk fjármálafyrirtæki vera í sérflokki á Evrópska efnahagssvæðinu.
Í heildina voru lagðar 970 stjórnvaldssektir á fjármálafyrirtæki innan EES-svæðisins fyrir 71 milljón evra á árinu 2023. Þrátt fyrir smæð landsins og fjármálakerfisins greiddu íslensk fjármálafyrirtæki um 11% af heildarsektarfjárhæðum á EES-svæðinu sem fjallað er um í skýrslunni og næsthæstu heildarfjárhæð allra ríkja á eftir Frakklandi.
Íbúafjöldi Íslands er innan við 0,1% af íbúafjölda svæðisins. Ef undirflokkar málefnasviðs skýrslunnar eru skoðaðir má sjá að íslensk fjármálafyrirtæki greiddu 42,5% af öllum sektum innan Evrópusambandsins fyrir brot á MiFID II tilskipuninni og MiFIR reglugerðinni frá framkvæmdastjórn ESB.
„Íslensk yfirvöld hafa allt frá efnahagshruninu árið 2008 verið að birgja brunninn eftir að barnið datt í hann. Við höfum verið með miklu strangari reglur á bönkunum heldur en aðrar Evrópuþjóðir,“ segir Jón.
„Í rauninni held ég að þetta sé sálrænt áfall eftir hrunið 2008. Vandamálið við þetta, og þetta er stórt vandamál, er að hrunið mun aldrei gerast aftur í sömu mynd og áður því þær aðstæður sem voru til staðar þá hafa ekki verið til síðan.“
„Af þeim sökum er óþarfi að setja þessar hörðu reglur á íslensk fjármálafyrirtæki og það hefur skaðað íslenskan efnahag að vera með svona harðar reglur,“ segir Jón. Jón bendir á hlutfallið af sektum vegna brota á MiFID II tilskipuninni og MiFIR reglugerðinni frá framkvæmdastjórn ESB en þar greiddu íslensk fjármálafyrirtæki um helming sektarfjárhæða.
„Það bendir til þess að það sé vandamál í íslenska eftirlitinu,“ segir Jón en um er að ræða hreinar upphæðir. „Það sem við þurfum á að halda er fjármálakerfi sem styður við hagvöxt í landinu og styður við nýsköpun. Með því að vera með svona harðar reglur um hvað bankarnir gera og áhætturnar sem fylgja bankastarfsemi veldur því að sú starfsemi sem þjáist mest er nýsköpun og slíkir hlutir sem við þurfum mest á að halda. Þessi afstaða eftirlitsins beinlínis skaðar íslenskt efnahagslíf,“ segir Jón.
Í fréttatilkynningu frá ESMA í tengslum við birtingu skýrslunnar sagði stofnunin að samræmi skorti á sektarfjárhæðum meðal fjármálaeftirlitsstofnana á Evrópska efnahagssvæðinu. ESMA beinir því jafnframt til fjármálaeftirlitsstofnana að horfa ekki bara til fjölda sekta eða fjárhæða sekta þegar kemur að því að meta árangur í sínum störfum
„Stjórnvaldssektir eru einungis eitt verkfæri í verkfærakistu eftirlitsstofnana og árangur má ekki vera eingöngu metinn út frá fjölda þeirra sekta eða sektarfjárhæðum þeirra viðurlaga sem beitt er í aðildarríki,“ segir í tilkynningu frá ESMA.
Samkvæmt skýrslu FME fyrir starfsárið 2023 kemur fram að á árinu var lögð fram stjórnvaldssekt að fjárhæð 76,5 milljónir króna á Símann hf., Íslensk verðbréf voru sektuð um 2,6 milljónir króna og þá fékkst endanleg niðurstaða fyrir dómstólum á 87 milljóna króna stjórnvaldssekt FME á Arion banka á árinu.
Dómstólar tóku einnig fyrir sekt FME á félagið Tryggingar og ráðgjöf en FME lagði 35 milljóna króna sekt á fyrirtækið. Endanleg niðurstaða Landsréttar lækkaði sektarfjárhæðina í 9 milljónir króna.
Fjármálaeftirlit Seðlabankans er þó ekki eina íslenska eftirlitsstjórnvaldið sem leggur háar sektir á íslensk fyrirtæki því þó að það falli ekki undir svið ESMA þá lagði Samkeppniseftirlitið langhæstu stjórnvaldssekt landsins á Samskip árið 2023.
Samkeppniseftirlitið sektaði Samskip um 4,2 milljarða króna árið 2023 en um er að ræða sektarfjárhæð sem er hærri en eigið fé félagsins.
Áskrifendur geta lesið umfjöllun Viðskiptablaðsins um sektirnar hér.