Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, undrast fullyrðingar Hönnu Katrínar Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, og Daða Más Kristóferssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um að þriðjungur af hagnaði veiðanna fari til ríkisins og restin til útgerðanna. Í því samhengi bendir hann á að ríkisstjórnin ætli ekki einungis að hækka veiðigjöld heldur einnig kolefnisgjald.

„Það er enginn innbyggður hvati fyrir fyrirtækin til að grípa til aðgerða til að minnka kolefnissporið og vinna sér þannig inn rétt til að greiða lægra kolefnisgjald. Þannig er þetta ekkert annað en hreinn skattur sem ríkisstjórnin stefnir á að margfalda.“

Í sameiginlegri tilkynningu ráðuneytanna kom fram að engin breyting verði á útreikningi veiðigjalds og útgerðin muni áfram halda 67% af hagnaði veiðanna en greiðir 33% af hagnaðinum fyrir afnot af auðlindinni. „Miðað við ofangreinda leiðréttingu má áætla að leiðrétt veiðigjöld skili allt að 10 milljörðum kr í ríkissjóð til viðbótar við þá 10,2 milljarða sem nú þegar eru greiddir. Við gerð frumvarpsins var tekið sérstakt tillit til smærri og meðalstóra útgerða með hærra frítekjumarki.“

Þorsteinn Már bendir á að útgerðir hér á landi greiði auk veiðigjalds og kolefnisgjalds sérstakt aflagjald, sem þekkist hvergi annars staðar meðal fiskveiðiþjóða. „Í raun er því verið að búa til allt annað rekstrarumhverfi á Íslandi en þekkist hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við og eigum í samkeppni við.“

Á sama tíma sé íslensk útgerð og fiskvinnsla að greiða hærri laun en aðrar þjóðir, auk þess sem vinnulöggjöfin leiði af sér hærri kostnað en í nágrannalöndum. „Ríkið fær einnig til sín ríflegar tekjur frá útgerðinni í gegnum fyrrgreind gjöld og skatta af launum starfsfólks í sjávarútvegi, auk veiðigjaldanna. Það er því mun meira en þriðjungur hagnaðar útgerðanna sem endar í ríkiskassanum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.