Veritas samstæðan, sem inniheldur fyrirtækin Vistor, Distica, Artasan, Medor og Stoð, skilaði 1.565 milljóna króna hagnaði í fyrra sem er 64,5% aukning frá árinu 2020 þegar samstæðan hagnaðist um 951 milljón. Arðsemi eigin fjár jókst úr 30,5% í 44,2% á milli ára. Samstæðan hyggst greiða út 1,3 milljarða króna vegna síðasta rekstrarárs.

Rekstrartekjur Veritas jukust um 13,4% frá fyrra ári og námu 28,2 milljörðum króna. „Velta Veritas samstæðunnar hefur vaxið umtalsvert á síðustu árum, þar eiga í hlut öll félög samstæðunnar. Þetta kemur til af meiri vörusölu og hækkandi verði vegna veikingar íslensku krónunnar. Af sömu ástæðu hefur afkoma samstæðunnar aukist,“ segir í skýrslu stjórnar í nýbirtum ársreikningi.

Laun og launatengd gjöld samstæðunnar jukust um 8,3% á milli ára og námu tæplega 3,1 milljarði en ársverk voru um 250 talsins, samanborið við 243 árið 2020.

Eignir Veritas námu tæplega 11 milljörðum króna í árslok 2021. Eigið fé var ríflega 4 milljarðar og skuldir um 7 milljarðar.

Guðrúnarborg ehf., móðurfélag Veritas samstæðunnar, er í 90% eigu félagsins Stormtré, sem er að mestu í eigu Hreggviðs Jónssonar. Hrund Rudolfsdóttir, forstjóri Veritas, fer með 4% hlut í Guðrúnarborg. Þá fer félagið Trausttak, sem er í meirihlutaeigu Gunnars Þórs Benjamínssonar, með 6% hlut.