Veritas heilbrigðissamstæðan hagnaðist um 1,62 milljarða króna hagnaði eftir skatta árið 2022 samanborið við 1,57 milljarða hagnað árið áður. Arðsemi eigin fjár var 40,9% í fyrra samanborið við 44,2% árið áður. Félagið hyggst greiða út 1,5 milljarða króna í arð í ár, að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi.

Veritas er móðurfélag fimm fyrirtækja á heilbrigðismarkaði; Vistor, Distica, Artasan, Medor og Stoðar. Velta samstæðunnar nam 29,5 milljörðum króna árið 2022 sem er 4,6% aukning frá fyrra ári.

Veritas heilbrigðissamstæðan hagnaðist um 1,62 milljarða króna hagnaði eftir skatta árið 2022 samanborið við 1,57 milljarða hagnað árið áður. Arðsemi eigin fjár var 40,9% í fyrra samanborið við 44,2% árið áður. Félagið hyggst greiða út 1,5 milljarða króna í arð í ár, að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi.

Veritas er móðurfélag fimm fyrirtækja á heilbrigðismarkaði; Vistor, Distica, Artasan, Medor og Stoðar. Velta samstæðunnar nam 29,5 milljörðum króna árið 2022 sem er 4,6% aukning frá fyrra ári.

„Velta Veritas samstæðunnar hefur vaxið umtalsvert á síðustu árum, þar eiga í hlut öll félög samstæðunnar. Þetta kemur til af meiri vörusölu og hækkandi verði vegna veikingar íslensku krónunnar. Af sömu ástæðu hefur afkoma samstæðunnar aukist,“ segir í skýrslu stjórnar.

Rekstrargjöld samstæðunnar jukust um 5,2% á milli ára og námu 27,5 milljörðum. Þar af voru laun og annar starfsmannakostnaður um 3,2 milljarðar króna en ársverk voru um 250 í fyrra.

Eignir samstæðunnar voru bókfærðar á 11,5 milljarða króna í árslok 2022. Eigið fé félagsins var um 4,3 milljarðar króna.

Guðrúnarborg ehf., móðurfélag Veritas samstæðunnar, er í 90% eigu félagsins Stormtrés, sem er að mestu í eigu Hreggviðs Jónssonar. Hrund Rudolfsdóttir, forstjóri Veritas, fer með 4% hlut í Guðrúnarborg. Þá fer félagið Trausttak, sem er í meirihlutaeigu Gunnars Þórs Benjamínssonar, með 6% hlut.

Söluferlið sett á ís

Í nóvember síðastliðnum var greint frá því að undirbúningur að söluferli hjá Veritas væri hafinn. Hrund Rudolfsdóttir, forstjóri Veritas, sagði við Innherja að horft væri til þess að fara í lokað útboð með áhugasömum innlendum og erlendum fjárfestum. Arion banki er ráðgjafi Guðrúnarborgar, móðurfélags Veritas, í ferlinu.

„Ekki er ljóst á þessari stundu hvaða áhrif söluferli fyrirtækisins hefur á starfsemi fyrirtækisins til framtíðar, en vonir standa til að niðurstaða náist um mitt ár,“ segir í ársreikningi félagsins sem var undirritaður í lok mars.

Greint var frá því Morgunblaðinu fyrir skömmu að búið væri að setja söluferlið á ís. Hefur Viðskiptablaðið fengið það staðfest. Samkvæmt heimildum blaðsins er ástæðan breyttar aðstæður í efnahagslífinu og þá sérstaklega hækkun vaxta, sem hefur áhrif á fjárfesta.