Aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins hafa samþykkt verkbann á félagsmenn Eflingar. Um 94,7% þeirra sem kusu greiddu atkvæði með verkbanni og 3,3% greiddu atkvæði á móti, að því er kemur fram í tilkynningu á vef SA.
Um 87,8% aðildarfyrirtækja á atkvæðaskrá SA tóku þátt í atkvæðagreiðslunni, sem lauk kl. 16 í dag.
„Að fá svo afgerandi niðurstöðu er mjög mikilvægt í þeirri orrahríð sem nú gengur yfir. Atkvæðagreiðslan leiðir í ljós gríðarlegan stuðning fyrirtækjanna í landinu við málflutning Samtaka atvinnulífsins og ábyrga nálgun okkar í afar vandasamri stöðu,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.
Verkbannið þýðir að félagsfólk Eflingar sem starfar hjá aðildarfyrirtækjum SA mætir ekki til starfa og launagreiðslur falla niður.
Verkbannið tekur að óbreyttu gildi í næstu viku, fimmtudaginn 2. mars kl. 12:00, og er ótímabundið þar til samist hefur. Fresti Efling verkföllum munu SA að sama skapi fresta verkbannsaðgerðum sínum.
SA segir að veittar verði undanþágur frá verkbanninu vegna mikilvægrar starfsemi í þágu samfélagsins. Gætt verði að lágmarka áhrif á viðkvæma hópa og veittar verða undanþágur til handa starfsemi er varðar öryggi, heilbrigði og lykilinnviði samfélagsins.
SA segir að verið ákvörðunin um að efna til verkbanns hafi ekki verið tekin af léttúð „en þau spil sem eru á hendi bjóða ekki upp á marga kosti“. Um sé að ræða neyðarráðstöfun þar sem fyrirtækin séu að bera hönd yfir höfuð sé þegar á skellur „hrina þaulskipulagðra verkfalla sem ætlað er að lama samfélagið en valda Eflingu sem minnstum skaða“.
SA segir að með verkbanni vonist þau til að ná fram skjótari niðurstöðu við samningsborðið.