Verkalýðsfélag starfsmanna Boeing hefur gagnrýnt nýjasta tilboð stjórnenda um 30% launahækkun yfir fjögurra ára tímabil. Fyrirtækið segir að þetta sé lokatilboð þeirra en upprunalega tilboðið hljómaði upp á 25% launahækkun.
Meira en 30 þúsund starfsmenn flugvélaframleiðandans hafa verið í verkfalli síðan 13. september sl.
Verkalýðsfélagið, International Association of Machinists and Aerospace Workers, segir að tilboðinu hafi verið fleygt á meðlimi án nokkurrar umræðu. Boeing hafi þá sent nýja tilboðið til bæði verkalýðsfélagsins og fjölmiðla án þess að segja fulltrúum IAM frá því.
Boeing neitar þessum fullyrðingum og segir að fyrirtækið hafi kynnt tilboðið „eftir að hafa hlustað á starfsmenn sína“. Tilboðið felur einnig í sér sex þúsund dala bónus og bætt eftirlaunakjör.