Tugþúsundir farþega eru nú strandaglópar á stærstu flugvöllum Frakklands eftir ákvörðun franskra flugumferðarstjóra um að fara í tveggja daga verkfall. Á vef BBC segir að fjórðungi fluga í París hafi verið aflýst og rúmlega helmingur fluga á flugvellinum í Nice.
Philippe Tabarot, samgöngumálaráðherra Frakklands, hefur fordæmt kröfur verkalýðsfélaganna og segir að það sé óásættanlegt að hefja verkfallsaðgerðir á mikilvægum tíma, þegar margir eru á leið í frí.
Lággjaldaflugfélagið Ryanair hefur meðal annars þurft að aflýsa 170 flugferðum og hafa ferðaáætlanir hjá rúmlega 30 þúsund farþegum raskast til þar sem verkfallið hefur ekki aðeins áhrif á flug til og frá Frakklandi heldur einnig á þær vélar sem fljúga yfir Frakkland.
Michael O‘Leary, forstjóri Ryanair, sakar flugumferðastjóra um að halda evrópskum fjölskyldum í gíslingu og biðlaði til framkvæmdastjórnar ESB um að grípa til aðgerða til að tryggja lágmarksþjónustu á meðan verkföllin standa yfir.
Búist er við enn meiri röskun á morgun og munu flugferðum fækka um rúmlega 40% á flugvellinum Charles de Gaulle í París ásamt Orla og Beauvais.