Allsherjarverkfall í Argentínu gegn niðurskurðaraðgerðum Javiers Milei forseta hófst í gær og stóð yfir í sólarhring. Verkfallið hafði víðtæk áhrif á daglegt líf þar í landi en skólar, bankar og margar verslanir voru lokaðar.

Hector Daher, einn helsti leiðtogi verkalýðsfélaganna í Argentínu, sagði að verkfallið væri ákall til forsetans til að endurskoða niðurskurðaraðgerðirnar.

Javier Milei, sem er hagfræðingur að mennt, bauð sig fram til forseta og lofaði að hann myndi draga úr opinberum gjöldum. Hann mætti einnig oft með keðjusög á fundi með stuðningsmönnum sem tákn um áætlun hans.

Forsetinn segir aðgerðirnar vera nauðsynlegar til að bæta úr halla hins opinbera í Argentínu og draga úr verðbólgu, sem er nú sú hæsta í heiminum.

Ríkisstjórn Milei hefur náð árangri síðan hann tók við embættinu og hefur hann náð að draga úr verðbólgu á undanförnum mánuðum. Gagnrýnendur segja hins vegar áætlunina vera of kostnaðarsama og saka verkalýðsfélögin og Milei hvorn annan um skemma og flækja líf almennra borgara í pólitískum tilgangi.

Skoðanakannanir benda þó til að Milei sé enn vinsæll meðal Argentínumanna. Nýlegar kannanir sýna að fylgi hans sé á bilinu 45-50% en hann naut 56% stuðnings meðal kjósenda í landinu þegar hann sigraði í kosningunum.