Verkfall hefur verið samþykkt í átta skólum og hefst 29. október nk. ef ekki verður samið fyrir þann tíma. RÚV greinir fyrst frá þessu en verkfall var samþykkt í atkvæðagreiðslu félagsmanna í Kennarasambandi Íslands.

Leikskólarnir fjórir eru Leikskóli Seltjarnarness, Holt í Reykjanesbæ, Drafnarsteinn í Reykjavík og Ársalir á Sauðárkróki. Grunnskólarnir þrír eru Áslandsskóli í Hafnarfirði, Laugalækjarskóli í Reykjavík og Lundarskóli á Akureyri. Einnig var samþykkt verkfallsboðun í Fjölbrautaskóla Suðurlands í Árborg.

Á vef Ríkisútvarpsins segir að enn standi yfir atkvæðagreiðsla í níunda skólanum, tónlistarskóla, þar sem atkvæðagreiðsla hófst degi síðar en í hinum skólunum.

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, sagði fyrr í vikunni að verið væri að fara aðra leið í fyrsta skipti með því að boða ekki til allsherjarverkfalls, heldur að taka til verkfalla á afmörkuðum starfsstöðum.