Um 417 þúsund vinnudagar töpuðust í Bretlandi vegna verkfalla í október samkvæmt gögnum Hagstofu Bretlands. Fjöldi vinnudaga sem tapast vegna verkfalla í einum mánuði hefur ekki verið meiri frá því í nóvember 2011.
Breska lestarkerfið hefur glímt við röð verkfalla frá því í sumar með tilheyrandi röskunum á lestaferðum í Englandi, Skotlandi og Wales.
Jafnframt eru verkföll boðuð hjá bresku póstþjónustunni Royal Mail, hjúkrunarfræðingum, starfsmönnum í flugafgreiðslu og fraktflutningum í vikunni.
Sam Beckett, forstöðumaður hagtölfræði hjá Hagstofu Bretlands, sagði við BBC að of snemmt væri að segja til um hversu mikil áhrif verkfallanna verða á breska hagkerfið.