Verna, nýtt íslenskt fjártæknifélag, hefur starfsemi sína í dag. Í tilkynningu segist félagið bjóða allt að 40% lægra verð á ökutækjatryggingum en gengur og gerist á íslenskum tryggingamarkaði en öll þjónusta Verna fer fram í gegnum app.

„Við getum áætlað að 70%-80% bifreiðareigenda á Íslandi séu að greiða of há iðgjöld og þessu ætlar Verna að breyta,“ segir Friðrik Þór Snorrason, framkvæmdastjóri Verna.

„Tryggingar á Íslandi hafa hækkað gríðarlega á síðustu sjö árum eða um ríflega 68%. Á sama tíma hefur verðbólga verið um 17%. Við það bætist svo að umferðarslysum á Íslandi fer hlutfallslega fækkandi sem ætti að skila sér í lægra verði á ökutækjatryggingum en það hefur ekki gerst. Það segir sig sjálft að það þarf að breyta virkni íslenska tryggingamarkaðarins í grundvallaratriðum.“

Fyrirtækið hefur þróað sínar eigin stafrænu lausnir sem eru notaðar til mæla akstur viðskiptavina í gegnum app, því betri sem akstur viðskiptavina er því lægri eru bifreiðatryggingarnar. Ökuskorið er mælt út frá fimm þáttum:

  • Hraða - Appið nemur hvort þú keyrir hraðar eða hægar en aðrir í kringum þig.
  • Mýkt - Appið nemur hversu mjúklega þú líður um göturnar. Stöðugur hraði er áhættuminnstur.
  • Einbeitingu - Símanotkun á ekki heima undir stýri, betri einbeiting gefur betra skor.
  • Tíma dags - Næturakstur er um 10x áhættusamari en akstur á daginn.
  • Þreytu - Það er hættulegt að keyra tímunum saman án þess að stoppa.

„Með appinu stýra viðskiptavinir sjálfir verðinu. Appið býr til ökuskor sem leiðbeinir viðskiptavinum um hvernig þeir geta bætt aksturinn og þannig lækkað verðið í hverjum mánuði. Bestu ökumennirnir geta lækkað verðið sitt um allt að 40% miðað við markaðsverð en að jafnaði geta viðskiptavinir Verna keyrt verðið niður um 20%,“ segir Friðrik Þór.

Allir sem eru 18 ára og eldri, eru skráðir eigendur eða meðeigendur bílsins, geta tryggt bílinn hjá Verna. Það er afar einfalt að skipta yfir til Verna. Viðskiptavinir sækja appið, skrá sig í viðskipti og skrifa undir uppsögn á gömlu tryggingunum með rafrænum hætti í Verna appinu.