Gagnaversfyrirtækið Verne, sem rekur sem á og rekur eitt stærsta gagnaver landsins á Ásbrú í Reykjanesbæ, hefur tryggt sér 10 hektara lóð í Mäntsälä í Finnlandi, sem er í um 40 mínútna akstursfjarlægð frá Helsinki.

Verne, sem var keypt af franska sjóðastýringafyrirtækinu Ardian í fyrra, áformar að byggja gagnaver með yfir 70 MW afkastagetu. Áætlað er að framkvæmdir hefjist um mitt ár 2025 og standi yfir í tvö ár, samkvæmt tilkynningu á heimasíðu Verne.

Fyrirtækið rekur fyrir þrjú smærri gagnaver í Finnlandi, í borgunum Helsinki, Pori og Tampere, sem félagið eignaðist með kaupum á gagnaversfyrirtækinu Ficolo árið 2022. Þá rekur Verne eitt gagnaver í London.

Sem fyrr segir keypti sjóður í stýringu hjá Ardian gagnaversfyrirtækið, sem hét þá Verne Global, fyrir hátt í 80 milljarða króna í fyrra. Ardian gaf það út að sjóðurinn hygðist fjárfesta í félaginu fyrir 1,2 milljarða dala til að styðja við frekari stækkun Verne í Norður-Evrópu.