Áfengisverslanir í Bandaríkjunum eru farnar að birgja sig upp af vinsælum áfengistegundum eins og bjór og tekíla. Ástæðan er sögð vera fyrirhugaðir tollar verðandi forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, á Mexíkó og Kanada.
Mexíkó er til að mynda eina þjóðin í heiminum sem má framleiða tekíla og hefur Trump lofað 25% tolli á allar innfluttar vörur sem koma þaðan.
Vinsælasti bjórinn í Bandaríkjunum, Modelo, er sömuleiðis frá Mexíkó og er búist við því að tollarnir myndu hafa áhrif á verðlag bjórsins, ásamt öðrum tegundum eins og Corona.
Chris Carey, hlutabréfasérfræðingur hjá Wells Fargo, segir að kostnaður Constellation Brands, sem flytur inn Modelo, Corona og Casa Noble-tekíla frá Mexíkó, gæti hækkað um 16%.