Hagvöxtur mældist aðeins 0,4% á öðrum ársfjórðungi í Kína, stærsta hagkerfi heims sé miðað við kaupmátt og það sem hvað hraðast hefur vaxið síðustu áratugi.

Harðar sóttvarnarráðstafanir sem gripið hefur verið til í ríkustu borg landsins, Sjanghæ, í viðleitni yfirvalda til að bæla veiruna niður með því að halda smitfjölda við núllið hafa haft lamandi áhrif á efnahaginn síðustu misseri.

Minni tilfelli hafa einnig raskað landbúnaðarframleiðslu og valdið lokunum einstakra verksmiðja, bæja og minni borga víðar um landið. Auk verulegra áhrifa á framleiðslu hefur eftirspurn hríðfallið og efnahagsumsvif með.

Vöxturinn er sá minnsti síðan í upphafi faraldursins þar í landi á fyrsta fjórðungi 2020 þegar Wuhan varð fyrsta borg í heimi til að gangast undir útgöngubann og hagkerfi landsins dróst saman um 6,9%. Að þeim fjórðungi undanskildum hefur hagvöxtur ekki mælst minni í yfir 30 ár, sem hafa skilað landinu að meðaltali um 10% árlegum hagvexti yfir það tímabil.

Í frétt Financial Times er 2,5% hagvöxtur fyrri árshelmings sagður þýða að ólíklegt þyki að 5,5% hagvaxtarmarkmið ársins náist, sem þó hefði að sama skapi verið minnsti árlegi vöxtur síðan 1990 þegar hann mældist 3,9%.