Elon Musk tók 13 milljarða Bandaríkjadali að láni til að kaupa samfélagsmiðilinn Twitter en samkvæmt The Wall Street Journal sitja lánveitendur Musk enn eftir með lánin á sínum bókum.
Sjö bankar, meðal annars Morgan Stanley og Bank of America, tóku þátt í að lána Musk milljarðana í október 2022. Venja er að þegar bankar lána fyrir stórum yfirtökum selji þeir lánin til fjárfesta skömmu síðar og græði á þóknunargreiðslum.
Bönkunum hefur þó ekki enn tekist að finna fjárfesta sem vilja kaupa skuldirnar og því hafa þeir þurft að halda lánunum á bókum sínum með tilheyrandi afskriftum.
Samkvæmt WSJ hafa bandarískir bankar ekki gert verri fjármögnunarsamninga síðan í efnahagshruninu 2008.
Samkvæmt gögnum frá Pitchbook LCD er einungis ein 20 milljarða dala yfirtaka frá árinu 2007 sem telst verri en tólf mánuðum síðan fóru bankarnir sem veittu lánin flestir á hausinn.
Steven Kaplan, prófessor í fjármálum hjá Háskólanum í Chicago, segir það sögulegt að bankarnir hafi þurft að sitja á lánunum í svona langan tíma en hann hefur fylgst með skuldsettum yfirtökum frá árinu 1980.
„Lánin liggja þungt á bönkunum og í miklu lengri tíma en ég hef séð áður,“ segir Kaplan.
Samkvæmt WSJ ákváðu bankarnir að veita Musk lán fyrir yfirtökunni þrátt fyrir að hann sjálfur hefði margsinnis sagt að hann væri að kaupa fyrirtækið langt yfir markaðsverði.
Samkvæmt heimildarmönnum WSJ hjá bönkunum var það sagt afar aðlagandi að fá að taka þátt í lánveitingum til ríkasta manns heims.
Bankarnir sjö eru Morgan Stanley, Bank of America, Barclays, MUFG, BNP Paribas, Société Générale og Mizuho.