Útlit er fyrir að bandaríski hlutabréfamarkaðurinn muni tapa 8% af markaðsvirði sínu á sveiflukenndu tímabili fyrstu 100 daganna af seinna kjörtímabili Donalds Trumps Bandaríkjaforseta.

Þetta er mesta lækkun á hlutabréfamarkaðnum á fyrstu hundrað dögum nýrrar ríkisstjórnar síðan að Gerald Ford tók við forsetaembættinu árið 1974 í kjölfar afsagnar Richard Nixon, að því er segir í frétt Financial Times. Bandarísk hlutabréf lækkuðu umtalsvert á þeim tíma, einkum vegna samdráttar í hagkerfinu og hækkandi olíuverðs.

Hlutabréfavísitalan S&P 500 hefur hækkað lítillega í fyrstu viðskiptum frá opnun markaða vestanhafs í dag. Vísitalan hefur lækkað um 8% frá innsetningardegi Trumps en líkt og þekkt er hefur tollastefna forsetans leitt til mikils óróa á eignamörkuðum um allan heim.

Hlutabréf lækkuðu verulega í kjölfar blaðamannafundar Trumps þann 2. apríl síðastliðinn þar sem hann tilkynnti um umfangsmikla tolla á flest viðskiptalönd Bandaríkjanna. S&P 500 vísitalan hefur rétt nokkuð úr kútnum eftir að Trump frestaði gildistöku tolla um 90 daga.