Seðlabanki Banda­ríkj­anna tilkynnti í dag 0,25 pró­sentu­stiga lækkun stýri­vaxta og eru þeir nú 4,25%-4,50%. Þetta er þriðja vaxta­lækk­un­in síðan í sept­em­ber.

Hlutabréf lækkuðu mikið í kjölfar ákvörðunarinnar en seðlabankinn sagði í dag að nú væri nýr taktur í vaxtaákvörðunarferlinu.

„Í dag var erfiðara val hvort við ættum að lækka en við ákváðum að þetta væri rétt ákvörðun. Héðan í frá erum við á nýju stigi og munum fara varlega í frekari lækkanir.“

Þetta sagði Jerome Powell seðlabankastjóri á blaðamannafundi eftir vaxtaákvörðunarfund bankans.

Eftir ákvörðun Seðlabankans lækkaði hlutabréfaverð, og ávöxtunarkröfur ríkisskuldabréfa hækkuðu. Nýjar spár, sem birtar voru í dag sýna að seðlabankamenn búast við að verðbólga verði þrálátari á næsta ári en áður var talið, hugsanlega vegna stefnumótunarbreytinga af hálfu verðandi forseta Donald Trump.

Spárnar benda til þess að embættismenn áætli færri vaxtalækkanir, þar sem flestir gera ráð fyrir tveimur lækkunum fyrir árið 2025, samanborið við fjórar sem áætlaðar voru í september.

Í aðdraganda fundarins gáfu nokkrir embættismenn í skyn að þeir hefðu minni sannfæringu um þörfina á stöðugum vaxtalækkunum. Fjárfestar tóku eftir þessum vísbendingum og verðlagning í framtíðarmörkuðum vexti gaf til kynna að Seðlabankinn myndi halda vöxtum óbreyttum á næsta fundi sínum í lok janúar.

Dow Jones vísitalan hefur lækkað um 2,58%, S&P500 um 2,95% og Nasdaq um 3,56%.