Iceland Seafood International hf. (ISI) hefur birt ársuppgjör sitt fyrir árið 2024 og sýna niðurstöðurnar verulegan afkomubata frá fyrra ári.

Hagnaður fyrir skatta af reglulegri starfsemi nam 1,1 milljarði króna, sem er umfram afkomuspá félagsins.

Rekstrartekjur samstæðunnar námu 66 milljörðum króna eða 443,2 milljónum evra, sem er 3% aukning frá fyrra ári. Á fjórða ársfjórðungi voru tekjurnar 19,3 milljarðar króna eða 129,2 milljónir evra, sem er 16% aukning frá sama tímabili 2023.

Framlegð jókst um 1,0 milljarð króna eða 6,4 milljónir evra frá fyrra ári, en hagnaður fyrir skatta af reglulegri starfsemi var 1,1 milljarður króna eða 7,4 milljónir evra, samanborið við 101 milljón króna eða 0,7 milljónir evra árið 2023.

Hagnaður ársins eftir skatta nam 414 milljónum króna eða 2,8 milljónum evra, en árið 2023 var tap upp á 3 milljarða króna eða 20,3 milljónir evra.

Hagnaður á hlut var 0,14 krónur, samanborið við tap á hlut upp á 1,1 krónu árið áður. Eiginfjárhlutfall hækkaði í 30% úr 28,5% í lok árs 2023, en EBITDA var 2,6 milljarðar króna eða 18,0 milljónir evra, samanborið við 1,6 milljarða króna eða 11,3 milljónir evra árið áður.

„Árið 2024 var ár viðsnúnings í rekstri Iceland Seafood og skiluðu öll rekstrarfélög samstæðunnar hagnaði á árinu eftir mjög erfið ár þar á undan. Það hefur verið mjög ánægjulegt að sjá þessa rekstrarþróun á fyrsta heila starfsári mínu hjá félaginu jafnframt því að skynja þau tækifæri sem felast í félaginu vegna öflugs starfsfólks, tryggra birgja og öflugra viðskiptavina. Fram eftir árinu 2024 voru sveiflur í verðum aðfanga og óvissa var á markaði. Hátt verð var á laxi fram undir mitt ár en það náði síðan jafnvægi sem gerði það að verkum að hagnaður var af laxatengdri starfsemi,” segir Ægir Páll Friðbertsson forstjóri ISI.

Tekjuaukning í Suður-Evrópu

Rekstur ISI í Suður-Evrópu gekk vel, en tekjur þar námu 9,1 milljarði króna eða 61,1 milljón evra á fjórða ársfjórðungi, sem er 6,5% aukning frá 2023. Heildarsala ársins var svipuð í verðmæti en dróst saman um 2% í magni.

Hagnaður fyrir skatta var 871 milljón króna eða 5,8 milljónir evra, sem er 766 milljónum króna eða 5,1 milljón evra meira en árið áður. Sala Iberica Group dróst lítillega saman á meðan sala Ahumados Domínguez jókst um 4,5% í verðmæti og 1% í magni. Í Norður-Evrópu voru rekstrartekjur 2,6 milljarðar króna eða 17,2 milljónir evra, sem er 13% aukning frá fjórða ársfjórðungi 2023.

Heildarsala ársins jókst um 6% og nam 8,6 milljörðum króna eða 57,3 milljónum evra. Verð á laxi var hærra en búist var við í byrjun árs og hélst hátt fram á annan ársfjórðung en jafnaðist út síðar á árinu.

Hagnaður fyrir skatta á fjórða ársfjórðungi var 229 milljónir króna eða 1,5 milljónir evra, samanborið við 163 milljónir króna eða 1,1 milljón evra árið 2023.

Sala og dreifing ISI stóð einnig vel undir væntingum, en tekjur á fjórða ársfjórðungi voru 8,0 milljarðar króna eða 53,6 milljónir evra, sem er 22% aukning frá fyrra ári.

Heildarsala ársins 2024 nam 27,0 milljörðum króna eða 181 milljón evra, sem er 2% aukning frá 2023. Aukinn áhugi og verðhækkun á þorski og ýsu í Bretlandi og Bandaríkjunum höfðu jákvæð áhrif á reksturinn.

„Þessi viðsnúningur í rekstri Iceland Seafood á árinu 2024 er mjög jákvæður í ljósi þess að félagið var að selja erfiðar birgðir sem skiluðu neikvæðri afkomu auk þess sem vaxtakostnaður hækkaði verulega á milli áranna 2023 og 2024 eða sem nam 0,5 milljörðum ISK (€3,6m). Þessi hækkun vaxtakostnaðar átti sér stað samhliða hækkun vaxta í helstu viðskiptalöndum okkar en þegar líða tók á árið 2024 sáum við vexti fara að lækka sem er jákvætt fyrir félagið,“ segir Ægir Páll.

Hagnaður fyrir skatta var umfram væntingar og félagið gerir ráð fyrir áframhaldandi jákvæðri þróun, þó að verð á laxi og þorski geti haft áhrif á afkomuna á nýju ári.