Bandaríska fjármáladagblaðið Financial Times birti í gær viðtal við Helga Rúnar Óskarsson, forstjóra 66°Norður, þar sem hann sýndi blaðamönnum Vestfirði, þar á meðal Þingeyri og Ísafjörð.
Viðtalið var tekið í tilefni hundrað ára afmælis 66°Norður sem haldið verður á næsta ári en félagið var upprunalega stofnað á Suðureyri.
Helgi Rúnar segir í samtali við Viðskiptablaðið að fyrirtækið hafi fengið mikla athygli í kjölfar stórafmælisins og var ákveðið að halda einnig upp á 99 ára afmæli 66°Norður.
„Við tókum smá forskot á sæluna og byrjuðum að halda upp á 99 ára afmælið okkar þar sem 99 er 66 á hvolfi. Við byrjuðum með það sem kallast arfleifðarsýning en þar sýndum við flíkur úr sögu fyrirtækisins, eins og flotagalla og regnkápur, í bæði London og Kaupmannahöfn.“
Erlendum blaðamönnum hafi síðan verið boðið til Íslands og fékk FT þá hugmynd að taka sérstakt viðtal við Helga um heimasvæði 66°Norður. „Þeir eru með þennan greinaflokk þar sem þeir velja einhvern til að taka viðtal við sem mælir með ákveðnu svæði sem hann heldur mikið upp á.“
Helgi Rúnar ferðaðist til Vestfjarða með blaðamönnum FT en þar voru meðal annars teknar myndir af Helga hlaupandi meðfram Gemlufalli og snæðandi hágæða sjávarrétti á hinu fræga Tjöruhúsi á Ísafirði.
„Þetta er líka virkilega jákvæð og góð grein fyrir íslenska ferðamennsku. Allir hér fyrir vestan eru líka í skýjunum yfir þessu en Vestfirðirnir hafa ekki náð sama ferðamannafjölda og margir aðrir staðir á Íslandi. Það þarf alveg sérstaka týpu til að þola allar þessar áskoranir sem náttúran hefur boðið upp á í gegnum aldirnar.“