Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafa samantekt um hlutfall útsvarstekna sem kemur frá fiskveiðum og fiskvinnslu sem sýnir hversu mikil áhrif tvöföldun veiðigjalda mun hafa á byggðir á Vesturlandi.
„En auðvitað fráleitt að kalla gjaldið landsbyggðaskatt!“ skrifar Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri Grýtubakkahrepps sem birtir jafnframt úttektina.
Þröstur segir að það sé afar slæm staða komin upp þegar umræða um mikilvæg málefni einkennist af stóryrðum og er rekin úr pólitískum skotgröfum.
„Ríkisstjórnin leggur málið því miður þannig upp að aðrir stökkva til ýmist með eða á móti. Margt er fullyrt, m.a. að gjaldtakan lendi fyrst og fremst á þeim stærstu, sem þoli vel. Einnig að hún hafi sáralítil áhrif á byggðir landsins. Samt vantar greiningar og gögn til stuðnings. Fjármálaráðherra talar alfarið út frá pólitík, ekki sinni menntun og þekkingu.“
Þröstur segir að veruleikinn sé ekki svona einfaldur, gjaldið leggst á alla greinina og það sem tekið er út kemur einhvers staðar við. Það veldur keðjuverkandi samdrætti, ekki bara á greinina heldur líka á iðnaði, á þjónustu og á nýsköpun.
„Það mun hafa bein neikvæð áhrif á hag fyrirtækja, einstaklinga og sveitarfélaga,“ segir Þröstur.
Í greiningu Vífils Karlssonar fyrir Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi á uppruna útsvarstekna sveitarfélaga 2024 sést hlutfall útsvarstekna sem kemur frá fiskveiðum og fiskvinnslu hjá nokkrum sveitarfélögum:
- Snæfellsbær 49%
- Langanesbyggð 44%
- Grýtubakkahreppur 40%
- Kaldrananeshreppur 40%
- Grundarfjörður 39%
- Vopnafjörður 37%
- Bolungarvík 35%
- Dalvíkurbyggð 34%
- Sveitarfélög á Höfuðborgarsvæðinu 1 - 2%
„Samt er talað um að skila því aftur út á land í formi vegabóta. Loforð stjórnvalda í þeim efnum hafa raunar haldið afar illa í fortíðinni.
Það er mikilvægt að gefa umræðunni tíma og ekki síður að byggja á gögnum fremur en pólitískri æsingu,“ skrifar Þröstur.
Þröstur birtir mynd af Hákoni ÞH, flaggskipi Grenivíkur, með færslu sinni og segir það sé frábær staða fyrir samfélagið að hafa sterk fyrirtæki sem hafa burði til slíkra fjárfestinga.
„Þær hafa keðjuverkandi áhrif um hagkerfið, með afleiddu tekjuflæði og auka að endingu tekjur ríkisins líka. Nákvæmlega um það snýst m.a. menntun fjármálaráðherra. “