Írska fyrirtækið Prime Arena Holdings hefur tilkynnt að til standi að byggja fyrsta íþróttaleikvang fyrir vetraríþróttir í landinu. Samkvæmt RTÉ mun fyrirhugaða verkefnið kosta 190 milljónir evra.

Prime Arena Holdings segir að leikvangurinn verði staðsettur á átta hektara lóð í Cherrywood í suðurhluta Dublin.

Verkefnið mun njóta stuðnings frá yfirvöldum í Dún Laoghaire-Rathdown og þegar vangurinn verður fullbyggður mun hann jafnframt koma til með að hýsa fyrsta atvinnuíshokkílið Írlands.

Leikvangurinn, sem mun rúma 13 þúsund áhorfendur, verður með skautasvell sem stenst kröfur Ólympíuleikanna og sérstaka þjálfunarmiðstöð fyrir íþróttamenn. Rýmið verður ekki aðeins fyrir vetraríþróttir en hægt verður að halda 50-70 viðburði á borð við tónleika og ráðstefnur árlega.

„Síðan 2021 höfum við hljóðlega en linnulaust unnið að því að koma þessari sýn í framkvæmd með ótrúlegu teymi og í dag erum við stolt af því að geta kynnt hana fyrir almenningi í Írlandi,“ segir Dermot Rigley, forstjóri Prime Arena Holdings.