Samkvæmt árshlutareikningi Reykjavíkurborgar fór rekstur og umhirða borgarlandsins rúmum milljarði yfir fjárheimildir á fyrstu níu mánuðum ársins.
Ef rýnt er í reikning borgarinnar stafar þetta að mestu vegna reksturs gatna og opinna svæða sem var 992 milljónum umfram fjárheimildir sem skýrist að mestu af vetrarþjónustu sem var 853 milljónum umfram fjárheimildir.
Um er að ræða tímabilið janúar til september en samkvæmt borginni var umframkeyrslan í vetrarþjónustunni vegna „aukinnar þjónustu og ótíðar.“
Samkvæmt Veðurstofu Íslands var þó ekki um óvenjuþungan vetur að ræða.
Í janúar voru 15 alhvítir dagar í Reykjavík sem er þremur dögum fleiri en að meðaltali 1991 til 2020. Í febrúar voru 17 alhvítir dagar í Reykjavík sem er fimm dögum fleiri en að meðaltali 1991 til 2020.
Á fyrstu tveimur mánuðum ársins voru því átta dagar sem snjóaði umfram meðaltal síðustu tveggja áratuga.
Þetta ætti þó að jafnast út því í marsmánuði var aðeins einn alhvítur dagur skráður, sem er 8 dögum færri en að meðaltali áranna 1991 til 2020.
Þá var jörð „flekkótt einn dag mánaðarins“ í apríl en aðra daga var hún auð og þá var jörð „alauð alla morgna í maí í Reykjavík.“
Sólskinsstundir voru yfir meðallagi í júní en rigning herjaði á landann í júlí og ágúst.
Í septembermánuði voru sólskinsstundir einnig yfir meðallagi og segir Veðurstofan að það hafi verið þurrara en á meðalári um mestallt land.
Fjármála- og áhættustýring Reykjavíkurborgar segir í greiningu sinni á sviðinu að um „afar mikinn kostnaðarauka að ræða umfram fjárheimildir.“
Samkvæmt fjármálasviðinu er búið að vinna greiningu á þjónustustigi umhverfis- og skipulagssviðs en það sé þó mikilvægt að fylgjast með árangri af umbótum.
Útgjaldaaukning en óbreytt flatarmál
Á tímabilinu 2018 til 2022 hækkuðu nettóútgjöld umhverfis- og skipulagssviðs um 91% og fóru úr 6,8 milljörðum í 13 milljarða.
Nettóútgjöld til reksturs og umhirðu borgarlands hækkuðu um 101% og fóru úr 4,8 milljörðum króna í 9,6 milljarða.
Á tímabilinu varð 0% breyting á flatarmáli í slætti á meðan flatarmál hreinsunar gatna og gönguleiða dróst saman um -12%.
Útgjöld til sviðsins lækkuðu örlítið árið 2023 og fóru nettóútgjöld umhverfis- og skipulagssviðs í 11,3 milljarða árið 2023 og nettóútgjöld reksturs og umhirðu borgarlands í 8 milljarða.
Á árinu 2023 fór þó rekstur og umhirða borgarlands 1,2 milljörðum umfram fjárheimildir og var vetrarþjónustan þar 961 milljón króna umfram fjárheimildir.
Vetrarþjónusta borgarinnar hefur því farið 1,8 milljarði króna umfram fjárheimildir síðastliðna 21 mánuði.
% breyting | |||
101% | |||
0% | |||
-12% | |||
Á fyrstu níu mánuðum ársins eru nettóútgjöld til umhverfis- og skipulagssviðs 8,9 milljarðar króna sem er innan fjárheimilda.
Nettóútgjöld til reksturs og umhirðu borgarlands námu 6,9 milljörðum á tímabilinu sem er 17,2% umfram heimildir.
Uppfærðu þjónustuhandbókina í fyrra
Í apríl í fyrra lagði stýrihópur á vegum borgarinnar fram sextán tillögur um hvernig megi bæta vetrarþjónustu í Reykjavíkurborg.
Í tillögunum er meðal annars stungið upp á að miða vetrarþjónustu við fimm mismunandi stig snjókomu og lagt til að oftar sé mokað á víðgengnum göngustígum.
Kröfunum sextán fylgdi aðgerðarlisti með um 40 aðgerðum alls.
Í viðtali við Vísi í fyrra sagði Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlands, að í desember í fyrra skiluðu aðgerðirnar árangri.
Með uppfærðri þjónustuhandbók vetrarþjónustu var útboðum hjá borginni breytt sem og ákveðnum verklögum og einstökum verkefnum vetrarþjónustunnar.
„Stærsta verkefnið var að bjóða sérstaklega út húsagötur þannig að við gætum brugðist hraðar og betur við snjókomu á húsagötum. Það tókst gríðarlega vel,“ sagði Hjalti.