Þrátt fyrir tilraunir til umbóta á árinu 2024 hélst kostnaður við vetrarþjónustu langt yfir áætlun. Reykjavíkurborg boðar áframhaldandi endurskoðun á framkvæmd, þjónustustigi og fjármögnun
Samkvæmt ársreikningi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2024 fór vetrarþjónusta borgarinnar um 1.130 milljónum króna umfram fjárheimildir.
Þetta er í samræmi við fyrri ár þar sem sami útgjaldaliður hefur farið reglulega fram úr fjárhagsáætlun.
Fjármála- og áhættustýringarsvið borgarinnar telur nauðsynlegt að dýpka umbótavinnu sem hófst á árinu, þar sem unnið var eftir tillögum stýrihóps um endurskipulagningu þjónustunnar, án þess þó að bætt væri við fjármagni í fjárhagsáætlun
„Á árinu 2024 var byrjað að vinna skv. tillögum stýrihóps um breytingar á vetrarþjónustu án þess að fjármagni hafi verið bætt í áætlun; tekið er að einhverju leyti tillit til þessara breytinga í áætlun 2025. Mikilvægt er að fylgst verði með árangri af umbótum,“ segir í ábendingum Fjármála- og áhættustýringarsviðs.