Fram­taks­sjóðurinn VEX II leiðir fjár­festingu í sam­tals um 70% hlut í hug­búnaðar­fyrir­tækinu Kaptio en meðal annarra fjár­festa eru Birgir Ragnars­son, Björn Karls­son og Jóhann Ólafur Jóns­son, stofn­endur hug­búnaðar­fyrir­tækisins Annata.

Sam­kvæmt Kaptio eru stærstu selj­endur vísis­sjóðurinn Frum­tak II, Ný­sköpunar­sjóður at­vinnu­lífsins og Arnar Lauf­dal Ólafs­son, annar af stofn­endum fé­lagsins, auk þess sem Kaptio mun gefa út og selja nýtt hluta­fé fyrir um 340 milljónir.

Um 70 starfs­menn starfa hjá fé­laginu og er á­ætluð velta ársins um 1,1 milljarður króna þar sem um 2/3 hluti tekna eru á­skriftar­tekjur. Tekjur fé­lagsins hafa rúm­lega tvö­faldast frá árinu 2022 og stórir við­skipta­vinir bæst í hópinn.

„Kaptio hefur byggt fram­úr­skarandi bókunar­lausn fyrir ferða­þjónustu og lagt grunninn að á­fram­haldandi þróun lausnarinnar til þess að mæta sí­vaxandi kröfum markaðarins. Fé­lagið hefur notið stuðnings öflugra hlut­hafa sem nú kveðja fé­lagið og þökkum við þeim fyrir sitt fram­lag og á­nægju­legt sam­starf. Um leið hlökkum við til að fá til liðs við okkur öfluga sam­starfs­aðila sem hafa reynslu af því að byggja upp og styðja við fé­lag eins og okkar. Að­koma þeirra er góð viður­kenning á því frá­bæra starfi sem starfs­fólk Kaptio hefur unnið á síðustu árum og þeirri sýn sem lögð hefur verið fram,“ segir Viðar Svans­son, for­stjóri Kaptio.

Kaptio, sem var stofnað 2012, er al­þjóð­legt hug­búnaðar­fyrir­tæki sem þróar og selur bókunar­hug­búnað fyrir ferða­þjónustu.

Við­skipta­vinir fé­lagsins eru í flestum til­fellum stór al­þjóð­leg ferða­þjónustu­fyrir­tæki sem selja og reka sér­ferðir, hópa­ferðir, skemmti­skipa- og lestar­ferðir, þar sem hug­búnaður Kaptio er grunn­undir­staða í rekstri fyrir­tækjanna.

„Starfs­fólki Kaptio hefur tekist að þróa leiðandi vöru á spennandi markaði og er í vaxtarfasa sem við teljum rétt vera að hefjast. Við komum inn sem kjöl­festu­fjár­festar og styðjum við sýn stjórn­enda sem felur meðal annars í sér aukna sókn í sölu- og markaðs­starfi auk þess að fjölga vörum og bæta við þá þjónustu sem fé­lagið veitir“ segir Bene­dikt Ólafs­son, eig­andi hjá VEX.

Fyrir­tækja­ráð­gjöf Kviku og LOGOS lög­manns­þjónusta voru ráð­gjafar fé­lagsins og selj­enda í við­skiptunum. LEX lög­manns­stofa veitti kaup­enda­hópnum ráð­gjöf.