Framtakssjóðurinn VEX II leiðir fjárfestingu í samtals um 70% hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu Kaptio en meðal annarra fjárfesta eru Birgir Ragnarsson, Björn Karlsson og Jóhann Ólafur Jónsson, stofnendur hugbúnaðarfyrirtækisins Annata.
Samkvæmt Kaptio eru stærstu seljendur vísissjóðurinn Frumtak II, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Arnar Laufdal Ólafsson, annar af stofnendum félagsins, auk þess sem Kaptio mun gefa út og selja nýtt hlutafé fyrir um 340 milljónir.
Um 70 starfsmenn starfa hjá félaginu og er áætluð velta ársins um 1,1 milljarður króna þar sem um 2/3 hluti tekna eru áskriftartekjur. Tekjur félagsins hafa rúmlega tvöfaldast frá árinu 2022 og stórir viðskiptavinir bæst í hópinn.
„Kaptio hefur byggt framúrskarandi bókunarlausn fyrir ferðaþjónustu og lagt grunninn að áframhaldandi þróun lausnarinnar til þess að mæta sívaxandi kröfum markaðarins. Félagið hefur notið stuðnings öflugra hluthafa sem nú kveðja félagið og þökkum við þeim fyrir sitt framlag og ánægjulegt samstarf. Um leið hlökkum við til að fá til liðs við okkur öfluga samstarfsaðila sem hafa reynslu af því að byggja upp og styðja við félag eins og okkar. Aðkoma þeirra er góð viðurkenning á því frábæra starfi sem starfsfólk Kaptio hefur unnið á síðustu árum og þeirri sýn sem lögð hefur verið fram,“ segir Viðar Svansson, forstjóri Kaptio.
Kaptio, sem var stofnað 2012, er alþjóðlegt hugbúnaðarfyrirtæki sem þróar og selur bókunarhugbúnað fyrir ferðaþjónustu.
Viðskiptavinir félagsins eru í flestum tilfellum stór alþjóðleg ferðaþjónustufyrirtæki sem selja og reka sérferðir, hópaferðir, skemmtiskipa- og lestarferðir, þar sem hugbúnaður Kaptio er grunnundirstaða í rekstri fyrirtækjanna.
„Starfsfólki Kaptio hefur tekist að þróa leiðandi vöru á spennandi markaði og er í vaxtarfasa sem við teljum rétt vera að hefjast. Við komum inn sem kjölfestufjárfestar og styðjum við sýn stjórnenda sem felur meðal annars í sér aukna sókn í sölu- og markaðsstarfi auk þess að fjölga vörum og bæta við þá þjónustu sem félagið veitir“ segir Benedikt Ólafsson, eigandi hjá VEX.
Fyrirtækjaráðgjöf Kviku og LOGOS lögmannsþjónusta voru ráðgjafar félagsins og seljenda í viðskiptunum. LEX lögmannsstofa veitti kaupendahópnum ráðgjöf.