Um þessar mundir hefur skuldabréfamarkaðurinn verðlagt yfir 5% árlega verðbólgu næstu 10 árin inn í verð- og ávöxtunarkröfumismun verðtryggðra og óverðtryggðra ríkisskuldabréfa, þótt vert sé að taka fram að verðbólguálagi, eins og það er kallað, skuli ávallt tekið með fyrirvara.
Verðþróun á skuldabréfamarkaði ber að sögn Valdimars Ármanns, forstöðumanns eignastýringar hjá Arctica Finance, enn fremur með sér að markaðsaðilar vænti stýrivaxtatopps upp á um eða yfir 8% áður en yfir lýkur, og að jafnvel eftir að honum verði náð og verðbólga og vextir fari að lækka aftur í kjölfarið muni það taka langan tíma að komast aftur í einhvers konar jafnvægi.
„Markaðurinn virðist vera að gera ráð fyrir því að vextir verði áfram háir í rauninni mjög lengi. Ef maður horfir á framvirka vexti eru þeir að detta niður í 7% aftur en haldast svo þar næstu þrjú árin – sem felur í sér spá um að verðbólga verði enn yfir efri vikmörkum Seðlabankans. Til lengri tíma er markaðurinn svo að vænta um það bil 6% vaxta,“ segir Valdimar.
Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.