Að mati greiningardeildar Landsbankans hefur hátt vaxtastig borið árangur í því að slá á þenslu í þjóðarbúinu. Eftirspurn hefur tekið að dragast lítillega saman á milli ára, bæði einkaneysla og fjárfesting, og á síðasta fjórðungi síðasta árs mældist aðeins 0,6% hagvöxtur.
Ásamt því hefur kortavelta heimila dregist saman milli ára síðustu tíu mánuði en þó aðeins lítillega síðustu mánuði. Þá bendir könnun meðal stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins að eftirspurn eftir vinnuafli sé að dragast saman.
„Við teljum að peningastefnunefnd meti kólnunina í hagkerfinu ennþá ekki áhyggjuefni, heldur frekar nauðsynlegan hluta af því að draga úr verðbólgu. Við teljum að á meðan verðbólga er enn jafn há og raun ber vitni sé ólíklegt að vextir verði lækkaðir í því skyni að stemma stigu við kólnun í hagkerfinu,“ segir í Hagsjá bankans sem kom út í morgun.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá telur Landsbankinn að peningastefnunefnd Seðlabankans muni halda vöxtum óbreyttum í næstu viku.
„Nefndin vill líklega ekki senda þau merki að hún taki ákvörðun um vaxtalækkun til þess að þóknast vinnumarkaðnum eða til þess að greiða fyrir kjaraviðræðum. Frekar vill hún fylgjast með frekari framvindu í kjaraviðræðum og vera þess fullviss að sátt náist víðar og stuðli að verðstöðugleika,“ segir í Hagsjá.