Greiðslukortavelta íslenskra heimila nam rúmum 120 milljörðum króna í júlí og jókst um 3,1% milli ára. Innanlands jókst kortavelta íslenskra heimila um 1,2% á föstu verðlagi milli ára og erlendis jókst hún um 9,8% á föstu gengi.

Þetta kemur fram í greiningu Landsbankans en Seðlabankinn tilkynnti rétt fyrir helgi um endurskoðun og uppfærða aðferð við birtingu gagna um greiðslumiðlun.

„Í ljósi þess hversu verulega fyrirtækjum í greiðslumiðlun og greiðslulausnum hefur fjölgað hafa hagtölur um kortaveltu verið endurbirtar aftur til janúar 2023 með gögnum frá fleiri aðilum en áður,“ segir í greiningu.

Gögn Seðlabankans sýna að kortavelta Íslendinga hefur aukist milli ára í hverjum einasta mánuði þetta árið. Aukningin hefur þá verið 4% meiri það sem af er ári en á sama tímabili í fyrra. Fyrri tölur gerðu ráð fyrir að aukningin yrði ekki nema 0,6% milli ára.

„Því má segja að uppfærðu tölurnar séu vísbendingar um mun meiri eftirspurnarkraft í hagkerfinu en áður var talið, en það rímar ágætlega við þróun verðbólgunnar, sem hefur verið umfram væntingar.“

Kortavelta er meðal þeirra hagvísa sem peningastefnunefnd Seðlabankans lítur til þegar kemur að vaxtaákvörðunum. Þar sem neysla landsmanna reynist aukast af krafti þrátt fyrir hátt vaxtastig telur bankinn ólíklegt að peningastefnunefnd muni lækka vexti á næstunni.